Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[10:08]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka upp þennan mikilvæga málaflokk. Það hefur verið mín stefna að styðja mun betur við Samtökin '78 en áður var gert. Fjárframlögin hafa sjöfaldast frá árinu 2017, þ.e. þau voru 6 millj. kr. árið 2017 og urðu 12 millj. kr. 2018. Síðan var málaflokkurinn færður yfir til forsætisráðuneytisins og framlögin voru þá aukin upp í 15 milljónir og nú er tímabundið framlag upp á 20 milljónir sem fjárlaganefnd ákvað að veita samtökunum. Eftir samtal við fjárlaganefnd á síðasta ári var það mín ákvörðun að leggja til að ramminn yrði einfaldlega aukinn um 25 milljónir þannig að samtökin fengju 40 milljónir til að sinna sínu víðfeðma hlutverki.

Hv. þingmaður nefnir hér hins vegar líka mikilvægt mál, það hvenær við felum frjálsum félagasamtökum að annast verkefni sem eiga að vera hluti af skyldum ríkis og sveitarfélaga, og það er eitt af því sem ég hef einnig tekið út úr þessum opnu fundum sem við höfum haldið um mannréttindi, þar sem meðalaldurinn hefur ekki verið hár. Mjög margt ungt fólk hefur verið að mæta sem hefur glatt mitt gamla hjarta mikið. Þeim er rosalega umhugað, ekki bara um þessi réttindi heldur líka réttindi innflytjenda og réttindi fatlaðs fólks. Þetta eru málin sem standa upp úr hjá þessu unga fólki, þar sem þau segja: Það verður bara að vera hluti af daglegri sýn, daglegum rekstri, hvort sem er í skólum, vinnustöðum eða hvað það er, að við séum með þessar breytur undir. Hún var t.d. áhugaverð, könnunin sem BHM og Samtökin '78 kynntu um hvernig hinsegin og kynsegin fólki líður á vinnustöðum þar sem þau fá jafnvel einhverjar furðulegar athugasemdir um sína kynhneigð. Það er auðvitað mjög sérstakt að það sé ekki bara hluti af stefnumótun fyrir viðkomandi vinnustað að við tökum tillit til þessa. Því förum við að færast á þann stað að við þurfum líka að velta þessum spurningum fyrir okkur: Hvaða verkefni felum við frjálsum félagasamtökum og hvernig (Forseti hringir.) styðjum við þau með sem bestum hætti? Ég tel að við höfum verið að gera betur en get tekið undir það með hv. þingmanni um að það eru fleiri verkefni (Forseti hringir.) sem blasa við. Síðan snýst þetta líka um það hvernig við breytum því hvernig við vinnum.