Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[10:10]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Hæstv. forsætisráðherra talaði dálítið mikið um verðbólguna í kynningarræðu sinni hérna. Það var fyrirsjáanlegt að efnahagurinn tæki við sér eftir Covid, mismunandi hvenær, en spurningin er kannski aðallega hvort aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafi verið hagkvæmar. Þær voru tvímælalaust nauðsynlegar en voru misáhrifaríkar. Verðbólgan var fyrirsjáanleg. Hún er fyrirsjáanleg þegar verið er að hella pening í hagkerfið. Hún var hærri en ella út af aðgerðum ríkisstjórnarinnar, t.d. í húsnæðismálum þar sem verið var að hella pening í eftirspurnaraðgerðir. Þetta er áhugaverð umræða sem við þurfum að taka í stærra samhengi. En það sem mig langaði til að spyrja hæstv. ráðherra út í var um loftslagsmálin. Í stefnuræðunni var það það sem forsætisráðherra lagði fyrst áherslu á. Þá erum við að tala um 55% samdrátt í því sem við berum ábyrgð á fyrir árið 2030, sjö ár í það. Það er ekkert rosalega mikið sýnt í þessu fjárlagafrumvarpi hvernig við náum þeim árangri. Á undanförnum árum, síðan 2005, hefur losun á fimm ára fresti u.þ.b. minnkað um 100 kílótonn. Við þurfum að minnka um 1.300 frá og með núna og til ársins 2030. Það lítur út fyrir að u.þ.b. 100 kílótonn séu út af Covid, sem gætu þá komið til baka fyrir árið 2022. Við erum að tala um nokkurn veginn umfang samgangna sem þarf að minnka á þessum sjö árum. Það er umfangið. Það er áskorunin sem við þurfum að bregðast við. Mig langaði til að spyrja hæstv. ráðherra, út af málamiðlunum í stjórnmálum, hvort það sé líklegt (Forseti hringir.) að hægt sé að ná málamiðlun við flokka sem lögðu ekki áherslu á loftslagsmál fyrir síðustu kosningar.