Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[10:23]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að koma hér og eiga orðastað við okkur nú þegar við ræðum um fjárlögin. Hún fór ágætlega yfir stöðuna frá sínum sjónarhóli hér í upphafsræðu, vísaði í ótrúlega tíma, faraldur og stríð, en talaði minna um að sveiflurnar væru alltaf ýktari hér á Íslandi en annars staðar. Þannig er veruleikinn okkar eins og við þekkjum. Það var mikið talað um verðbólguna sem er sambærileg við það sem gerist í grannríkjunum, en ekki var mikið talað um vextina sem eru margfalt hærri hér en í nágrannalöndunum. Hér á Íslandi eigum við til ýmis tæki vegna hárra vaxta og verðbólgu. Við erum með verðtryggingu, sem er sjúkdómseinkenni en ekki sjálfur sjúkdómurinn, höfum í gegnum áratugina endalaust dælt peningum í vaxtabótakerfi sem er líka einkenni en ekki sjúkdómurinn sjálfur. Við erum sem sagt alltaf að slá á einkenni í stað þess að reyna að vinna á sjúkdómnum. Við bryðjum panódíl gegn krabbameini en reynum ekki að lækna meinið sjálft sem er auðvitað sveiflóttasti og dyntóttasti gjaldmiðill í heimi, íslenska krónan. Ofan á svæsnar vaxtahækkanir, sem sliga fjölmörg heimili um þessar mundir, á að hækka gjöld og álögur. Það er boðað í þessu fjárlagafrumvarpi. Það á sem sagt að ganga á undan með slæmu fordæmi. Gjaldahækkanir hækka verðbólgu og þótt það kunni að vera óvenjulegt er fordæmið slæmt fyrir sveitarfélög og jafnvel út á hinn almenna markað. Ríkisstjórnin gengur ekki á undan með góðu fordæmi. Það er ekki verið að kynna nein úrræði til að lækka húsnæðiskostnað sem heitið getur og vísað í seinni tíma með það. Hækkandi húsnæðisverð er auðvitað einn stærsti verðbólguvaldurinn eins og við vitum. Við þurfum hins vegar að sætta okkur við þetta hærra vaxtastig og því er gjarnan haldið fram líka að þetta hærra vaxtastig sé merki um þróttmikið efnahagslíf. Segjum það við fólkið sem núna borgar kannski 100.000 kr. meira á mánuði af láninu sínu en áður var.

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Er ekki augljóst, miðað við þær gjaldahækkanir sem boðaðar eru og koma ofan í þessar vaxtahækkanir, að þær muni (Forseti hringir.) hækka verðbólgu og senda slæmt fordæmi til sveitarfélaga og jafnvel út á hinn almenna markað? Erum við þá ekki með ríkisstjórn sem í raun og veru vinnur gegn eigin markmiðum?