Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[10:28]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir og gott að málfarslöggan er á vaktinni, (Gripið fram í.) gæti verið mikið að gera hjá henni þegar þingfundir eru langir eins og oft er hér. En það var áhugavert að heyra hæstv. forsætisráðherra svara þessu, og gott og vel, við eigum eftir að sjá betur á spilin þegar kemur að húsnæðismálunum. En þó að verið sé að tala um gjaldahækkanir og hækkandi álögur á eitthvað sem menn skilgreina ekki sem nauðsynjavörur þá getum við teygt okkur ansi langt í hækkanir ef við ætlum að nota það endalaust sem viðmið þegar við ræðum um gjöld og álögur á heimilin, þótt ég skilji í sjálfu sér punktinn. Þetta er einfaldlega vandmeðfarið og það sem ég er kannski að reyna að draga fram er að Seðlabankinn kallar eftir því að til að hann geti náð árangri í efnahagsmálum þá þurfi ríkissjóður og ríkisstjórnin að róa í sömu átt. Ég myndi halda að það væri ekki heppilegt og búi til ákveðinn freistnivanda, að gefa út þau skilaboð til annarra sem fara með það vald að geta hækkað gjöld eða álögur að það sé í lagi að gera það að uppfylltum einhverjum ákveðnum skilyrðum. En það er annað mál.

Mig langaði hins vegar, af því að verið var að tala svolítið um bankasöluna í orðaskiptum hér á undan, að nefna að ég hjó eftir því að hæstv. forsætisráðherra, og það eru svo sem engin ný sannindi, telur einboðið að ríkið eigi að eiga Landsbankann áfram. Ég skil sjálfur ekki, þegar við erum að tala um stöðu ríkissjóðs eins og hún er núna, af hverju ríkið ætti að halda á 300–400 milljörðum í eign sinni á bönkum — það er hálfur Íslandsbanki og allur Landsbankinn — í stað þess að losa um þetta fé og greiða niður skuldir. Ég skil heldur ekki hvers vegna mönnum finnst það góð hugmynd að ríkið ætti að vera í samkeppni við einkaaðila í bankarekstri og þá á einhverjum allt öðrum forsendum, sem hefur síðan áhrif á einkaaðilana. Í framhaldi af því langar mig kannski að spyrja hæstv. forsætisráðherra, af því að hún talaði um tæknibreytingarnar: (Forseti hringir.) Er ekki einmitt hættumerki fyrir ríkið að halda utan um þessa eignarhluti til lengri(Forseti hringir.) tíma þegar tæknibreytingar eru svo örar og við vitum ekki hvert bankakerfið þróast og hvert tekjumódel þess verður í framtíðinni?