Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[10:47]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra segir skipulagða glæpastarfsemi vera vaxandi vandamál á Íslandi. Hann segist hafa beitt sér fyrir styrkingu lögreglu og hyggst gera það áfram. Þetta var haft eftir hæstv. ráðherra í júní síðastliðnum þegar lögreglan hafði upplýst um mesta magn fíkniefna sem nokkru sinni hafði verið lagt hald á, eða samtals að andvirði 1,7 milljarða kr. 20 voru handteknir en málið hafði þá þegar verið í rannsókn um nokkra hríð og skipti þar sköpum að lögregluembættin voru í samvinnu. Já, það vantar fjármagn í lögregluna, í sjálfa löggæsluna, m.a. til varnar skipulagðri glæpastarfsemi en einnig vegna vinnutímastyttingar sem var mjög kærkomin fyrir þessa starfsstétt, en við hana hurfu margar stöður lögreglumanna á vöktum. Og hvernig er þessari staðreynd svarað af ríkisstjórninni? Jú, með niðurskurðarhnífnum sem í fjárlögum kallast almennar aðhaldsaðgerðir og nema að mér sýndist um 400 milljónum sem verður dreift yfir verkefni málaflokksins löggæsla. Ég hlýt því að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra: Nú þegar málsmeðferðartími einstakra mála í rannsókn lögreglu kemur harkalega niður á hvort tveggja brotaþolum sem og sakborningum, nú þegar undirmönnun lögreglu um árabil kemur niður á rannsókn brota, hvernig gengur það upp að segjast ætla að styrkja lögreglu en ætla sér ekki að efla lögregluembættin hringinn í kringum landið heldur þvert á móti að beita niðurskurðarhnífnum einmitt þarna? Væri ekki hægt að finna þessa fjármuni einhvers staðar annars staðar en að skera niður hjá almennri löggæslu?