Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[10:49]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Hér er fyrst að nefna það að við höfum náð miklum árangri í að styrkja lögregluembættin á þessu ári. Það tókst með aðkomu Alþingis og í samstarfi við Alþingi við gerð fjárlaga þessa árs, fjáraukalaga á síðasta ári. Þannig voru nýverið auglýstar sjö stöður hjá lögregluembættinu á höfuðborgarsvæðinu sem tengjast kynferðisafbrotum, þ.e. bæði til rannsóknar og saksóknar, og fram hefur komið hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu að með þessari myndarlegu viðbót sé reiknað með að málsmeðferðarhraði í þeim málum hjá embættinu muni verða mjög ásættanlegur. Við höfum einnig aukið framlög til skipulagðrar brotastarfsemi. Við höfum fjölgað nemendum í lögreglunámi til háskólanáms og við höfum heimilað lögregluembættum úti á landi, eins og á Norðurlandi eystra og Reykjanesi, að ráða tæknifólk sem tekur þátt í samstarfi og þjónustu við önnur lögregluembætti í lausn mála sem snúa t.d. að skoðun á tölvum og farsímum og slíku. En við höfum verið í vinnu frá því í byrjun þessa árs með lögreglustjórum og öllum embættum í því að skoða starfsemina með það að markmiði að styrkja starfsemina úti á landi. Það er mikil þörf á því að gera ákveðnar breytingar innan embættanna og á skipulagi og starfsemi sem nær þvert yfir öll embættin. Það hefur gengið mjög vel. Ákveðnar tillögur liggja þegar á borðinu sem ríkir sátt um meðal lögreglustjóranna og við verðum að fara að hrinda þeim í framkvæmd. Ég treysti á það að núna þegar þessar niðurstöður liggja fyrir, þessi kortlagning sem við erum búin að vera að vinna að núna í hálft ár, verði grundvöllur fyrir Alþingi og ríkisstjórn til að beita sér fyrir því að á grundvelli þeirra breytinga, á grundvelli þess að við erum núna (Forseti hringir.) búin að ná utan um það hvar við þurfum peninga, í hvaða starfsemi, þá verði framlög aukin til lögreglu á næsta ári því að það er nauðsynlegt.