Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[10:53]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Aðeins til að svara því fyrst sem kemur að lögreglunni. Ég vil taka undir með hv. þingmanni að fjárveitingavaldið er hjá Alþingi. Þessar 120 milljónir, sem vitnað er í varðandi löggæslu á landsbyggðinni, voru einskiptisframlag fyrir þetta ár sem fjárlaganefnd eða Alþingi setti inn. Við höfum engar heimildir til að halda því áfram, Alþingi setti þetta inn til eins árs. Það er auðvitað mjög bagalegt að vinnubrögðin skuli vera með þessum hætti vegna þess að í þessum málaflokki sem öðrum þarf að vera fyrirsjáanleiki. Ef embættin eiga að ráða mannskap út á 120 milljónir sem Alþingi ákveður, í meðförum þingsins, að veita lögregluembættum en engin orð um að það gildi áfram er erfitt að ráða í þau störf. Við höfum samt reynt að nýta þessa peninga í þágu embættanna úti á landi en ekki sem skyldi vegna þessa fyrirvara. Þetta er eitthvað sem ég vonast til að verði tekið til umræðu núna og verði hluti af því sem horft verði til gagnvart lögreglunni til framtíðar og það komi meiri fyrirsjáanleiki í þennan mikilvæga málaflokk.

Varðandi dómstólana er aðeins mismunandi ástand milli dómstiga. Það er alveg rétt að það hefur verið ákveðinn hali hjá Landsrétti sem auðvitað skýrist af því ástandi sem þar skapaðist. Það er allt annað ástand þar í dag og málshraðinn er að aukast og það er miklu betra hljóð í fólki við þann dómstól. Við höfum óskað eftir því að geta flutt framlög á milli dómstóla einmitt til að mæta þessu. Ég vona að tekið verði vel í það og þá teljum við að þetta geti verið í ásættanlegu horfi. Við erum síðan með í undirbúningi, og það mun líta dagsins ljós á haustmánuðum, miklar breytingar á héraðsdómstiginu sem að okkar mati munu styrkja dómstigið, mun hraða málsmeðferð og mun leiða til sparnaðar þegar upp verður staðið, (Forseti hringir.) ekki síst í ljósi stafrænna lausna og rafrænnar þjónustu.