Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[11:15]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Hér erum við stödd í málaflokki sem er, getum við sagt, mjög erfiður varðandi það að gera einhverjar áætlanir um útgjöld. Eins og fram kemur í fréttum sem eru að birtast okkur núna hefur ríkislögreglustjóri lýst yfir hættustigi á landamærum vegna innflytjenda sem streyma til landsins í áður óþekktum fjölda og glíman er orðin þannig að það er orðið mjög erfitt við að eiga. Það gefur augaleið að þessu fylgja gríðarlega mikil útgjöld og að því leyti er í sjálfu sér erfitt að gera áætlun fyrir næsta ár. Ég held að það sé óumdeilt að ef okkur tekst að innleiða þær breytingar sem eru í útlendingafrumvarpinu þá mun það leiða til ákveðins sparnaðar þegar upp verður staðið og aukinnar skilvirkni og miklu betri málsmeðferðar. En það sem skiptir auðvitað grundvallarmáli þegar kemur að þessum útlendingamálum almennt er að við séum í stakk búin til að veita þeim sem raunverulega þurfa á vernd að halda, þeim sem leita inn í verndarkerfið, eru að flýja svæði og aðstæður þar sem líf og limir eru í hættu — þetta er fólkið sem við viljum geta tekið utan um, veitt skjól og að við ráðum vel við það. Verndarkerfið er sett á laggirnar af Sameinuðu þjóðunum og er skilgreint í þessa veru og við viljum standa vörð um og sinna skyldum okkar á þeim vettvangi. Allar þjóðir glíma við ákveðna misnotkun á þessu verndarkerfi og því miður erum við að upplifa það líka. Margir koma hingað í leit að betra lífi og vilja koma hingað til að starfa og dvelja á Íslandi, (Forseti hringir.) sem ég tek hjartanlega undir að við þurfum á að halda og við eigum að greiða leið þeirra, en þeir eiga að koma á grundvelli þess að (Forseti hringir.) sækja hér um dvalarleyfi og atvinnuleyfi en ekki í gegnum verndarkerfið vegna þess að smátt og smátt getur molnað undan því mikilvæga alþjóðlega kerfi.