Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[12:02]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég hef nú aldrei sagt að það sem verið sé að gera þegar kemur að kjörum atvinnulausra eða kjörum örorkulífeyrisþega sé nóg. Ég kannast ekki við að hafa talað með þeim hætti eða gefið slíkt í skyn. Þær tölur sem ég fór í gegnum hérna áðan sýna í rauninni það sem ríkisstjórnin hefur gripið til. Ég held að það hafi fáir átt von á því að ríkisstjórnin myndi grípa til aðgerða á miðju ári 2022, en það gerðum við í ljósi verðbólgunnar. Hvort það sé nóg eða hvort það dugi til ætla ég ekki að segja til um en það er í það minnsta viðleitni í rétta átt og voru mikilvæg skref fyrir fólk á þeim tíma. Síðan erum við að horfa til þess að hækka um áramótin núna að venju til þessara hópa. Við erum með heildarendurskoðun á lögum um atvinnuleysistryggingar í gangi, ég boða líka frumvarp til laga um desemberuppbót til atvinnuleitenda, sem hefur vissulega verið greidd á undanförnum árum en ekki haft lagastoð. Ég er að vinna í heildarendurskoðun á örorkulífeyriskerfinu, mun koma fram með tvö frumvörp í haust sem eru fyrstu skrefin í þá átt og í vor koma með frumvarp sem á að umbylta kerfinu. Það á að hafa það að markmiði fyrst og fremst að einfalda það, gera það skýrara og gera það sanngjarnara og með þeim hætti að það mæti betur sérstaklega lægstu hópunum. Það eru svör mín hér í dag við þessu, ríkisstjórnin er að vinna að þessum málum á mörgum vígstöðvum. Þar mætti nefna líka húsnæðismálin sem hæstv. innviðaráðherra er að vinna að og boðar aðgerðir síðar í haust. Svona mætti lengi telja.