Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[12:47]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Virðulegur forseti. Eins og ég kom aðeins inn á við lok fyrra svars míns þá erum við í góðu sambandi við bæði Reykjanesbæ og Hafnarfjarðarbæ, sérstaklega til að reyna að aðstoða þau við að létta álagi á sveitarfélögunum. Það er þá fyrst og fremst tvennt sem við erum að horfa til. Það eru í fyrsta lagi samningar um samræmda móttöku, það er eitthvað sem við getum gengið í núna að ræða við önnur sveitarfélög og ætti að geta létt á þeim þrýstingi að fólk haldi áfram að búa í þeim sveitarfélögum sem það fyrst kemur til. Í öðru lagi er það sérstaklega, líkt og ég nefndi áðan, að finna ný úrræði þar sem fólk fær að vera áður en það fær vernd, setja það inn í fleiri sveitarfélög en við höfum verið að gera í dag. Þetta eru verkefni sem við erum að vinna að í ráðuneytinu í samstarfi við Vinnumálastofnun. En síðan að spurningu þingmannsins varðandi önnur sveitarfélög: Já, ég bæði hef beitt mér og ætla mér að beita mér meira fyrir því að fleiri sveitarfélög komi inn í þetta. Ég hef þegar hafið samtal við sveitarfélög, m.a. hér á höfuðborgarsvæðinu. Við erum líka í sambandi við sveitarfélög úti á landi, eins og Akureyri, Árborg og fleiri, til að fá þau inn í samræmdu móttökuna, m.a. til að dreifa álaginu betur á milli sveitarfélaga. Kemur til greina að fylgja hreinlega fordæmi Norðurlandanna og setja lög með kvóta? Mér finnst það vera eitthvað sem við þurfum að skoða. Það er hins vegar eitthvað sem gerist ekki einn, tveir og þrír, en ég tek undir að það er ein leið til að jafna meira álaginu sem verið hefur (Forseti hringir.) og mun verða áfram miðað við þær spár sem við erum að sjá koma frá landamærunum.