Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[14:05]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Ég er ánægður að heyra að haldið sé vel utan um kostnaðinn þó að ráðherrann sé ekki með tölurnar á takteinunum, sem er kannski eðlilegt. Það er líka eðlilegt að sú sérstaka aðgerð sem við erum að fara í með öðrum þjóðum vegna stríðsins í Úkraínu sé skilgreind sérstaklega. En það sem ég var helst að leita eftir var hvort heilbrigðiskerfið væri með einhverjar viðmiðanir um hvernig kostnaður þess myndi þróast í ljósi þess mikla fjölda sem ríkislögreglustjóri gerir nú ráð fyrir að mæti hér og muni aukast af ástæðum sem hæstv. dómsmálaráðherra nefndi áðan, það sem Ísland hefur að bjóða. En það virðist vera margt óljóst í heilbrigðiskerfinu og annars staðar. Það skortir gögn, eins og hæstv. heilbrigðisráðherra nefndi hér áðan, og menn eru svona að skipa starfshópa og skoða hitt og þetta. Eitt af því sem menn virðast ekki hafa hugmynd um er hvað neysluskammtur fíkniefna er, af því að þetta kom til umræðu áðan. Ég spurði hæstv. ráðherra að þessu í skriflegri fyrirspurn og þegar svarið barst, seint og um síðir, ef svar skyldi kalla, þá kom þar fram að menn vissu það ekki. Engu að síður var ríkisstjórnin búin að leggja fram frumvarp og berjast fyrir því að lögleiða neysluskammta fíkniefna. Svo kemur á dæmið að þeir vita ekki hvað það er. Lokasetningin í svari hæstv. ráðherra er kostuleg, svo ég lesi hana, frú forseti:

„Áætlað er að starfshópurinn ljúki störfum“ — þetta er 13 manna starfshópur — „á haustdögum 2022 og má í kjölfar þess gera ráð fyrir að þá muni liggja fyrir hver sé neysluskammtur ávana- og fíkniefna, en á þessari stundu liggur slík skilgreining ekki fyrir.“

Frú forseti. Sýnir þetta ekki bara fáránleika áforma ríkisstjórnarinnar um lögleiðingu fíkniefna á grundvelli neysluskammta? Ríkisstjórnin var búin að leggja fram frumvarp og berjast fyrir því en vissi ekki hvað hún væri að tala um.