Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[14:55]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra þá vakti ræða hæstv. matvælaráðherra athygli mína og ég verð að segja hrifningu þar sem hún talaði um mikilvægi þess að auka samfélagslega sátt um sjávarútveginn með tilteknum punktum sem hún fjallaði sérstaklega um, gagnsæi, bæði hvað varðar eignatengsl og stjórnunartengsl, og sérstaklega orð hennar um að ráðstöfun almannagæða og dýrmætra veiðiheimilda verði að vera hafin yfir allan vafa. Við sem þjóð berum öll sterkar taugar til greinarinnar og hæstv. matvælaráðherra þekkir það auðvitað manna best hversu stór þessi umræða er í samfélaginu öllu, réttlætisspurningarnar, hver hlutur þjóðarinnar raunverulega er, bæði hvað varðar tímabindingu réttinda, hver eigi auðlindina í reynd og sann og um gjaldtökuna. Mig langar til að spyrja hæstv. matvælaráðherra aðeins nánar út í þessi orð hennar af því að ég veit að þau vöktu athygli margra og eflaust samstarfsflokkanna líka. Ég vil líka spyrja um þá vinnu sem er í gangi og ég þekki það, hún hefur farið rækilega yfir það, en hverjar væntingar hennar eru um það hver afurð vinnunnar verður og hvað hún sér fyrir sér að leggja fram sem ráðherra sjávarútvegsins í frumvörpum fyrir þingið. Ég vil að síðustu að spyrja hana um þetta stóra stef sem mætti kannski segja að hafi verið í umræðunni í sjálfu sér alla tíð en ekki síst í áliti auðlindanefndarinnar frá árinu 2000 um að afnotarétturinn sé takmörkuð eignarréttindi. nýting en ekki eign. Ég vil spyrja hvort hún taki undir það mat og hvort hún taki undir það álit að hér sé um tímabundin og uppsegjanleg réttindi að ræða en líka hvað hæstv. ráðherra sér fyrir sér að leggja fram til Alþingis til meðferðar.