Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:06]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Það er nú áhugavert að heyra hv. þingmann koma hér með ágætar vangaveltur og spurningar um stöðu íslensks landbúnaðar á meðan staðan var auðvitað sú að stóri tollasamningurinn við Evrópusambandið sem og núverandi búvörusamningar voru gerðir með hann í sæti forsætisráðherra. En gott og vel, pólitísk fortíð vill gleymast. Ég vil segja það að okkar viðfangsefni er auðvitað alltaf að viðhalda framleiðsluviljanum og bæta árangur og við viljum gera það. Hv. þingmaður nefnir hér mál sem lúta að áburðarnotkun, en þar höfum við lagt áherslu á, og ég veit að hv. þingmaður áttar sig líka á því, að með því að nýta afurðir sem við lengst af höfum kallað úrgang til að framleiða innlendan áburð þá gætum við að því að draga úr kolefnisspori og aukum hér áherslu á hringrásarhagkerfið.

Mun matvælaframleiðsla minnka, standa í stað eða aukast? Hún mun aukast á næstu árum (SDG: Kjöt.) og þar eru ýmis sóknarfæri eins og hér hefur komið fram.

Hv. þingmaður vísar til þróunar sem er til að mynda í Hollandi. Ekkert slíkt er í gangi þar sem hv. þingmaður vísar til. Ég vil fullvissa þingmanninn um að hér stendur ekkert annað til en að standa með innlendum landbúnaði eins og hann leggur sig, mjólkurframleiðslu, kjötframleiðslu, grænmetisrækt og þeim sóknarfærum sem eru fyrir hendi í því að auka kornframleiðslu á Íslandi.