Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:25]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég held að það sem við séum að horfa á er varðar íslenska kvikmyndaframleiðslu eru miklar framfarir. Þessi ríkisstjórn, sú sem situr í dag og sú sem kláraði síðasta kjörtímabil, stórjók framlög til íslenskrar kvikmyndaframleiðslu tvö ár í röð þar sem við jukum um samtals, eins og ég nefndi áður, tæpan milljarð. Þetta voru fjármunir sem komu í kjölfar átaks ríkisstjórnarinnar í tengslum við Covid. Þannig komu fjármunir. Það er af og frá að við séum að hverfa frá kvikmyndastefnunni, enda er hún alveg feikilega vel unnið plagg og í fyrsta sinn er verið að vinna heildstæða kvikmyndastefnu fyrir landið. (Gripið fram í.) Það sem við erum hins vegar að gera, hv. þingmaður, er að við þurfum, vegna þeirra efnahagslegu stöðu sem við erum í, að fresta ákveðnum hluta. Það þýðir ekki að það sé varanlegur niðurskurður. Þessar 500 milljónir eða þessi tæpi hálfi milljarður er ekki farinn, hann er áfram inni í þessu ráðuneyti og þegar við sjáum að verðbólgan er að minnka og það rofar aðeins til hvað það varðar þá ætlum við að horfa áfram til þess að setja fjármuni í kvikmyndastefnuna.

Virðulegur forseti. Þar sem verið er að gera núna á sviði menningar og hefur ekki verið gert áður er að við erum að móta stefnu fyrir hverja listgrein til þess að geta einmitt stýrt því hvernig fjármunir eru nýttir og að þeir nýtist sem best. Og það verður að segjast alveg eins og er að það til að mynda að endurgreiðslan sé komin nú þegar í 35% ætti að vera fagnaðarefni vegna þess að við sjáum að veltan í greininni er að aukast verulega. Hins vegar tek ég undir með hv. þingmanni að það er mjög mikilvægt að íslensk framleiðsla haldi áfram að vera öflug.