Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:50]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Mig langar að halda aðeins áfram með þessa umræðu af því að hún er dálítið áhugaverð, sérstaklega miðað við svör ráðherra. Nú er það svo að það eru þarna rétt tæpar 500 milljónir til Kvikmyndamiðstöðvar og Kvikmyndasjóðs sem minnka sem sagt. Ef við miðum við fjárlagafrumvarp, í rauninni reikning 2016, þá var Kvikmyndasjóður í 917 milljónum. Ef við verðlagsuppfærum það erum við í u.þ.b. 1.200 milljónum. Núverandi upphæð upp á tæpar 1.100 milljónir er því minni að verðlagi en framlögin voru 2016. Þarna munar ekki 800 milljónum bara í krónutölumismun, þetta er minna en það, mun minna, þannig að ég átta mig ekki alveg á Covid-dótinu þarna.

Það er líka annað sem hæstv. ráðherra sagði sem ég skil ekki og það eru þessar 500 milljónir sem eru enn þá í ráðuneytinu, eru einhvern veginn á sveimi, eitthvað svoleiðis, og munu koma aftur í þessi verkefni þegar verðbólgan hverfur. Hérna er talað um áætlun 2024 og 2025 og það eru ef eitthvað er bara lægri upphæðir, 1.093 milljónir í ár, 1.062 árið 2024 og 1.046 árið 2025. Samanborið t.d. við stjórnsýslu menningar og viðskipta þá er þar verið að auka um 200 milljónir, í rauninni aðeins meira af því að það vantar væntanlega launauppfærslurnar inn í þann lið en það eru engar launauppfærslur á Kvikmyndasjóði. Þetta eru dálítið áhugaverðar tölur hérna og mig langar tað vita hvar þessar 500 milljónir eru á sveimi. Ég átta mig ekki á því.