Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:55]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra nokkurra spurninga. Talsvert hefur verið rætt um mikilvægi uppbyggingar menningartengdrar ferðaþjónustu og verkefni sem víðast á Íslandi. Nú þegar metfjöldi ferðamanna sækir Ísland heim er sannarlega lag að finna nýja áningarstaði fyrir ferðamenn og gera ferðamennskuna sjálfbærari með því að dreifa ferðamönnum betur um landið og einnig með því að auðga menningarlíf í héraði sem víðast. Nefna má Gullna söguhringinn, sem Dalamenn hafa verið að vinna að, Eyrbyggjusetur að Skildi í Helgafellssveit, Landnámssetrið í Borgarnesi, Kakalaskála og Sturlungasögu í Skagafirði, Kómidíuleikhúsið í Haukadal í Dýrafirði, Sauðfjársetrið á Ströndum, Selasetrið á Hvammstanga, Spákonuhof á Skagaströnd, Kvennaskólann á Blönduósi og þannig mætti áfram telja. Hvernig sér ráðherra fyrir sér að hægt sé að styðja betur við slík mikilvæg menningarverkefni?