Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:15]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég er nú bara úr Hafnarfirði og skil kannski ekki alveg allt og ekki með sömu greind og allir ráðherrarnir sem sitja hér á ráðherrabekknum. En það kann vel að vera rétt sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir, að margir ráðherrar hafi ekki svarað nægilega skýrt. Mér fannst alla vega áðan svar menningar- og viðskiptaráðherra vera harla rýrt og ég lýsi bara yfir verulegum áhyggjum varðandi máltækniverkefnið. Það er enn og aftur farið af stað með eitthvert gaspur, lofað alls konar hlutum, eins og til að mynda kvikmyndagerðarmenn hafa fengið að reyna núna, og ekki er hægt að standa við allar þær vonir og væntingar sem gefnar hafa verið. Hitt er síðan að ég lýsi yfir sérstökum áhyggjum, m.a. eftir þetta svar hæstv. ráðherra hér undir fundarstjórn, af því hvernig málaflokknum um samkeppnismál er fyrir komið. Það er greinilegt að bæði Viðreisn og allur þingheimur þarf að halda þessum ráðherra samkeppnismála verulega á tánum þennan þingveturinn.