Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:41]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér fjárlagafrumvarpið og einstaka málaflokka þess. Ég vil byrja á því að fagna að forgangsraðað sé til heilbrigðis- og velferðarmála í fjárlagafrumvarpinu en skil á sama tíma að það er mikilvægt að sýna aðhald þannig að ríkisfjármálin styðji við markmið um lækkun verðbólgu og aukinn stöðugleika í hagkerfinu. Allir málaflokkar eru vissulega mikilvægir en í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu er komin upp breytt staða í utanríkis- og öryggismálum. Við Íslendingar sem frjáls og fullvalda þjóð höfum ekki farið varhluta af áhrifum stríðsins. Þó eru þau áhrif hjóm eitt samanborin við þær hörmungar sem nú blasa við úkraínsku þjóðinni.

Frú forseti. Stríð í Evrópu kallar á endurskoðun þjóðaröryggisstefnu sem ég geri ráð fyrir að fari fram hér á Alþingi í haust. Við megum ekki festast í þeirri blekkingu að langvarandi friður í Evrópu sé ávísun á að svo verði áfram. Það sýnir stríðsrekstur Rússa svart á hvítu. Því fagna ég auknum útgjöldum til að mæta viðhaldi varnarmannvirkja, hefja uppsetningu á öruggum samskiptarýmum hjá sendiskrifstofum og auknum fjárframlögum til endurmenntunar starfsfólks sem sinnir varnartengdum verkefnum.

Á sama tíma hef ég áhyggjur af getu Landhelgisgæslunnar og ríkislögreglustjóra til að mæta áskorunum í tengslum við varnarmál. Áhugavert væri að heyra skoðun hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, staðgengils utanríkisráðherra í þessari umræðu, um hvort ekki sé ástæða til að skoða þá þörf sérstaklega en samkvæmt fjárlagafrumvarpinu eru þjónustusamningar umræddra stofnana við utanríkisráðuneytið óbreyttir.