Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[16:56]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það hefur komið fram í opinberri umræðu að við Íslendingar höfum í stuðningi okkar við Úkraínu reynt eftir fremsta megni að veita aðstoð í krafti þeirrar þekkingar og getu sem við búum sérstaklega yfir. Við höfum áður rætt það hér í þinginu hvernig t.d. sérfræðiþekking vegna skimunar fyrir sprengjum í jörðu hefur gagnast og þá ekki endilega á vettvangi heldur til þjálfunar þannig að hægt sé að leita að sprengjum. Við þekkjum sömuleiðis hvernig íslenska ríkið hefur fjármagnað flutninga til Úkraínu þegar þörf hefur verið á flugvélum, ef ekki hefur tekist að koma varningi á leiðarenda sem aðrar þjóðir hafa viljað útvega. Síðan höfum við sömuleiðis tekið eftir því að stjórnvöld í Úkraínu hafa gjarnan viljað taka sem mest ákvarðanir sjálf um það hvernig fjárstuðningi er háttað frekar en t.d. að allir taki það upp hjá sér að fara að senda vörur þannig að það safnist mögulega fyrir of mikið af ákveðnum vörum eða varningi sem margar þjóðir koma til með að leggja sameiginlega inn. En það er engu að síður gert ráð fyrir að drjúgum hluta af þróunarsamvinnuframlögunum verði áfram varið til mannúðaraðstoðar og efnahagsaðstoðar að miklu leyti í gegnum stofnanir Sameinuðu þjóðanna og síðan alþjóðabanka. Við gerum ráð fyrir hækkun á framlögum til stofnana Sameinuðu þjóðanna sem skýrist m.a. af ástandinu í Úkraínu. En stofnanirnar sem ræðir um að öðru leyti eru Rauði krossinn, UNICEF og Flóttamannastofnun, svo dæmi séu tekin.