Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 4. fundur,  16. sept. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[17:29]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Þótt a.m.k. seinni hluti svars hæstv. ráðherra hafi verið eins og söngur í eyrum mínum verð ég að fresta því að ræða þau mál nánar sem þó er fullt tilefni til. Ég þarf að spyrja meira út í ráðstöfun þess fjármagns sem við höfum til ráðstöfunar til að gera gagn í heiminum og kem þá inn á atriði sem heyrir aðeins að hluta til undir utanríkisráðuneytið, það er reyndar sérstakt vandamál í þessum málaflokki hversu dreift þetta er og skortur á heildaryfirsýn. En í morgun lýsti ríkislögreglustjóri yfir hættustigi á landamærunum vegna þess að það hefði verið mikill straumur hælisleitenda til landsins og menn sæju fyrir sér að sá straumur færi bara vaxandi að því marki að við hefðum ekki burði til að bregðast við, taka á honum. Hæstv. dómsmálaráðherra sagði í morgun réttilega í umræðu um sinn málaflokk að þetta væri að verulegu leyti vegna þess sem Íslendingar hefðu eða byðu upp á, vegna þeirra skilaboða sem við höfum sent frá okkur. Við þessu hef ég og fleiri lengi reynt að vara, að það skorti stefnu hjá þessari ríkisstjórn sem hjálpar okkur að gera sem mest gagn fyrir þá sem þurfa mest á hjálpinni að halda. Því spyr ég hæstv. ráðherra, sem vill svo heppilega til að er ekki aðeins starfandi utanríkisráðherra heldur líka fjármálaráðherra: Er ekki tímabært að meta betur hvernig það fjármagn sem við höfum til ráðstöfunar í málefnum hælisleitenda nýtist? Því að í þessu fjárlagafrumvarpi sem við erum að ljúka umræðu um nú í 1. umr., virðist mér að leikinn sé sami leikur og oft áður, að fela raunverulegan kostnað, taka ekki tillit til þess sem er fyrirsjáanlegt, a.m.k. fyrirsjáanlegt að mati ríkislögreglustjóra.