Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 5. fundur,  19. sept. 2022.

kostnaður við innleiðingu tilskipana.

[15:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég hef sannarlega ekkert á móti því að reyna að slá á kostnaðinn við innleiðingar á Evrópugerðum. Þegar umfangið er skoðað þá held ég að við getum einmitt þakkað fyrir að vera ekki í Evrópusambandinu út af því umfangi sem við myndi bætast, allar þær nefndir sem þar eru sem við myndum aldrei ná að sinna sem myndu bætast við og sem eru að ræða um og smíða reglur sem á endanum væri farið fram á að yrðu teknar upp hér á Íslandi. Ég er hins vegar ekki þeirrar skoðunar að Evrópska efnahagssvæðið skili ekki miklum ávinningi fyrir okkur, þvert á móti, ég held að hann sé gríðarlega mikill. En það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni og ég held að það séu ekki allir sem gera sér grein fyrir því hvert umfangið er í einstaka málum. Við erum með dæmi um mál í fjármálaráðuneytinu þar sem að baki lagabreytingum eru gerðir sem telja í einstöku máli um 20.000 blaðsíður.