Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 5. fundur,  19. sept. 2022.

verklagsreglur lögreglu um vopnanotkun.

[15:42]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Barn stendur við eldhúsgluggann heima hjá sér, heyrir hróp og köll og fer út. Þar horfir það upp á svartklæddan, vígbúinn mann beina hríðskotabyssu að föður þess og skipa honum að leggjast í jörðina. Sérsveit hefur fylkt sér að húsinu og miðað vélbyssum í andlit bæði fjölskylduföðurins og móðurinnar. Svartklæddir sérsveitarmennirnir öskra spurningar að fjölskyldunni. Faðirinn er settur í handjárn og barnið horfir á eftir föður sínum þar sem hann er leiddur niður innkeyrsluna og inn í lögreglubíl. Svo kemur í ljós að þetta var allt misskilningur. Tilefni útkallsins var að sést hafði til barns í kúrekaleik með vinum sínum. Barnið var komið heim til sín og farið að snúa sér að öðru. Sem betur fer var engin hætta á ferð og fjölskyldan gat borðað kvöldmat saman, heil á húfi líkamlega. En setjum okkur í spor barns sem horfir upp á það að sérsveitin kemur heim til þess öskrandi á foreldrana, verndara þess, og beini skotvopnum í andlitið á þeim. Að upplifa viðlíka innrás á heimili sitt, svæði sem á að heita öruggt, er augljóslega gríðarlegt áfall og engu barni bjóðandi.

Hér var lýst raunverulegum atburðum sem áttu sér stað um helgina. Í kjölfar þessara atburða og í samhengi við önnur alvarleg atvik sem orðið hafa á síðustu vikum og mánuðum, þar sem sérsveit lögreglunnar og börn koma við sögu, vil ég beina þeirri spurningu til hæstv. dómsmálaráðherra hvort ekki séu fyrir hendi einhverjar verklagsreglur sem lögregla og sérsveit hennar fylgja þegar brugðist er við ábendingum frá almenningi, hvort í ráðuneytinu sé einhver vinna í gangi við endurskoðun á þeim til máltöku.