Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 5. fundur,  19. sept. 2022.

verklagsreglur lögreglu um vopnanotkun.

[15:44]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það eru til mjög ítarlegar verklagsreglur hjá lögreglunni um það þegar gripið er til vopna. Það þarf einnig sérstakar heimildir til að gera það og það er eingöngu fólk með þjálfun og réttindi sem fær leyfi til þess. Ég þekki ekki einstök dæmi og þetta dæmi sem hér var lýst er sorglegt en við getum alltaf átt von á því að slíkt hendi. Við búum í samfélagi þar sem vopnaburður er að verða miklu víðtækari en verið hefur. Það sést best á útkallstölum, þegar farið er yfir útköll þar sem bregðast þarf við vopnaburði eða vopn eru ástæða útkalls t.d. sérsveitar eða annarra sérþjálfaðra lögreglumanna. Öryggi lögreglumanna er við þessar aðstæður líka ógnað. Lögreglumenn eiga líka sínar fjölskyldur. Lögreglumenn vilja líka koma heilir heim úr sinni vinnu. Ég bið bara um skilning fyrir það fólk sem vinnur þessi mikilvægu störf í samfélaginu, skilning á aðstæðum þeirra. Ég endurtek é að það dæmi sem hér var farið yfir, sem ég þekki ekkert til, hef ekki heyrt um áður, er sorglegt og þetta er ekki góð lýsing. En það verður aldrei hjá því komist að slík mistök geti átt sér stað í hita leiksins. Auðvitað er það okkar markmið með þjálfun og verklagsreglum að takmarka slíkt eins og hægt er. Verklagsreglurnar eru í endurskoðun með tilliti til hugsanlegra breytinga sem við erum að skoða. En það er eitthvað sem við erum að vinna í nánu samstarfi við lögregluna, sem er mjög umhugað (Forseti hringir.) um að hafa strangt og öflugt regluverk í kringum vopnaburð lögreglumanna.