153. löggjafarþing — 5. fundur,  19. sept. 2022.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2023.

2. mál
[15:57]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga árið 2023. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á allmörgum lögum í samræmi við forsendur frumvarps til fjárlaga. Efnisatriði þess eru af margvíslegum toga og hafa bæði áhrif á tekju- og gjaldahlið fjárlagafrumvarpsins. Ég mun nú fjalla nokkuð ítarlega um þau atriði sem mestu máli skipta en sú yfirferð er ekki endilega í sömu röð og er að finna í frumvarpinu.

Í fyrsta lagi eru í frumvarpinu tillögur um 7,7% uppfærslu á svokölluðum krónutölugjöldum í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins. Er þá miðað við áætlaða 12 mánaða breytingu vísitölu neysluverðs yfir árið 2022 sem er 7,7% samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofunnar. Þannig munu gjöldin halda verðgildi sínu milli ára í stað þess að rýrna að raunvirði eins og undanfarin ár.

Ég tek eftir því að Reykjavíkurborg gerir gott betur og hækkar frá 1. september gjaldskrár sínar til þess að vinna upp það sem verðbólgan hefur farið fram úr forsendum ársins og fleiri sveitarfélög eru eflaust að skoða þetta þannig að gjaldskrár sveitarfélaganna séu ekki að rýrna að raungildi.

Þessi hækkun í frumvarpinu nær til áfengis-, tóbaks-, bensín-, olíu-, kolefnis-, bifreiða- og kílómetragjalds ásamt gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra, útvarpsgjalds og gjalda sem falla undir lög um aukatekjur ríkissjóðs. Hér er um að ræða aðgerð stjórnvalda á tekjuhlið ríkisfjármálanna sem miðar að því að draga úr þenslu. Hvað er átt við með því? Jú, ef gjaldstofnar ríkisins eru að rýrna að raungildi er í sjálfu sér í því falin ákveðin örvun ríkisfjármálanna sem hægt er að segja að auki þenslu sem myndi þá einnig auka verðbólgu. Þess má geta að gjöld samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs hafa verið óbreytt frá árinu 2019. Hér er sem sagt verið að vísa til laga um aukatekjur ríkissjóðs en frumvarpið fjallar um breytingu á ýmsum lögum. Sum þessara gjalda hafa verið að taka hækkunum á hverju ári um 2,5% í samræmi við það verklag, skulum við segja, sem við tókum upp fyrir nokkrum árum að halda breytingum milli ára í takt við verðbólgumarkmið. En það á ekki við um öll þessi gjöld. Þau hafa heilt yfir verið að rýrna að verðgildi þrátt fyrir þá hækkun sem við erum hér að boða. Síðan er rétt að geta þess að gert er ráð fyrir að uppfærslan skili ríkissjóði um 6,4 milljörðum á ári að meðtöldum hliðaráhrifum á virðisaukaskatt.

Í öðru lagi er hér um að ræða breytingar gerðar á vörugjaldi á ökutæki með nýju 5% lágmarksgjaldi, lækkun losunarmarka og lækkun skattprósentu. Það eru sem sagt lagðar til breytingar á vörugjaldi sem lagt er á ný ökutæki við innflutning eða framleiðslu. Breytingunum er ætlað að breikka skattstofn vörugjalds. Tekjur af vörugjaldi á bifreiðar hafa dregist hratt saman síðustu ár, ekki síst vegna ríflegra skattahvata stjórnvalda fyrir almenning til kaupa á vistvænum bílum. Samhliða miklum árangri í orkuskiptum er brýnt að endurheimta tekjurnar á komandi árum til að áfram megi standa undir viðhaldi og kraftmikilli uppbyggingu vegakerfisins.

Tillagan felur í sér að losunarviðmið ökutækja sem ráða skatthlutfalli vörugjalds á ökutæki verði hert. Jafnframt felur tillagan í sér álagningu á sérstöku 5% vörugjaldi sem lagt verður á allar nýjar fólksbifreiðar og önnur vélknúin ökutæki með skráða losun koltvísýrings sem ekki eru sérstaklega tilgreind í undirflokka. Samhliða gerð tillaga um álagningu á sérstöku vörugjaldi upp á 5% sem m.a. verður lagt á rafmagnsbifreiðar. Þá er lögð til lækkun á skattprósentu á hvert gramm á kílómetra skráðrar losunar. Losunarmörk vörugjalds lækka um 5 grömm en þau hafa í grunninn haldist óbreytt frá því að skattlagning vörugjalds á ökutæki tók fyrst mið af skráðri losun árið 2011. Frá þeim tíma hafa tekjur af vörugjaldi af hverri bifreið farið lækkandi vegna örrar þróunar við framleiðslu sparneytinna og vistvænna fólksbifreiða. Þá mun skattprósentan lækka um 0,03 prósentustig til að milda áhrifin af lækkun losunarmarkmiða.

Þetta kann að hljóma mjög tæknilegt allt saman en í grunninn er það að gerast hér að við erum annars vegar að fá svo mikla fjölgun í rafmagnsbifreiðum að gjaldstofn þessi er að gefa hratt eftir. Við erum að fá þá þróun sem við vonuðumst eftir og þurfum að bregðast við áhrifunum af þessum árangri vegna þess hversu hratt gjaldstofninn er að gefa eftir. Á sama tíma og það er að gerast þá er gríðarlega mikið ákall um uppbyggingu í samgöngumálum, um stofnvegi, tengivegi, það er verið að vinna að gangagerð, brúarsmíði og víða er þörf á viðhaldi. Allt eru þetta verkefni sem þarf að fjármagna og stofninn sem að verulegu leyti hefur staðið undir þessum framkvæmdum öllum er að gefa eftir.

Vörugjald á rafmagnsbifreiðar upp á 5% kemur til sögunnar á sama tíma og sérstakar ívilnanir fyrir bílaleigur eru að renna sitt skeið. Við erum að fara yfir rekstrarumhverfi bílaleigufyrirtækja til að svara því með hvaða hætti við myndum áfram vilja hvetja bílaleigur til að taka í gagnið umhverfisvæna bíla. Síðan, eins og hefur verið í umræðunni í tilefni af þessu máli, hefur rafmagnsbílum fjölgað svo ört að það er fyrirséð að 20.000 bíla markinu verði náð á næsta ári og við viljum sömuleiðis svara því núna á haustmánuðum hvers konar ívilnanir kynnu að koma í framhaldi af því að því marki verður náð. En ég hef tekið eftir því að í opinberri umræðu virðist gert ráð fyrir því að samhliða þessum breytingum þá verði allar aðrar ívilnanir látnar renna sitt skeið en það er ekki hugsunin. Áætlað er að þessi breyting skili ríkissjóði 2,7 milljörðum í viðbótartekjur.

Í þriðja lagi er í frumvarpinu lögð til tvöföldun á lágmarki bifreiðagjalds sem er lagt á fólksbíla. Gjaldið fer úr 7.540 kr. í 15.080 kr., en það er greitt tvisvar á ári. Á móti verða losunarmörk hækkuð þannig að bifreiðagjald sem lagt er á fólksbifreiðar með losun umfram 200 grömm á kílómetra helst óbreytt að raunvirði. Aðgerðinni er sömuleiðis ætlað að styrkja tekjustofna ríkissjóðs af ökutækjum eftir mikla tekjulækkun síðustu ár en horft er til þess að breytingarnar marki fyrstu skref að nýju fyrirkomulagi þar sem gjaldtaka miðist í auknum mæli við notkun. Með þessum breytingum verður meðaltal álagningar bifreiðagjalds á fólksbifreiðar nálægt því sem það var árið 2017, leiðrétt fyrir verðbólgu. Það er áætlað að þessi breyting skili ríkissjóði 2,2 milljörðum í viðbótartekjur.

Það þekkja það allir að rafmagnsbifreiðarnar eru ekki að greiða neina skatta eftir að þær koma inn í landið umfram bifreiðagjaldið. Það leiðir af sjálfu sér að þær mæta ekki á bensínstöðina til að taka bensín sem fylgir bensínskattur eða taka dísilolíu sem fylgir olíuskattur og þannig er í sjálfu sér notkunin á vegakerfinu algerlega gjaldfrjáls í dag fyrir rafmagnsbílana fyrir utan það að eignarhaldið sjálft leiðir til þess að viðkomandi eigandi fær reikning fyrir bifreiðagjaldi. En það er ekki nóg með að rafmagnsbifreiðarnar greiði ekkert fyrir notkun á vegakerfinu heldur hafa þær haft lægra bifreiðagjald vegna þess að bifreiðagjaldið á þeim bílum sem nota jarðefnaeldsneyti er að hluta til bundið við losun. Það leggst ákveðið losunarálag ofan á fastagjaldið. Ég er þeirrar skoðunar að það sé orðið tímabært að feta sig smám saman inn í nýtt kerfi þar sem ég sé fyrir mér í framtíðinni að bílar muni allir greiða fyrir notkun á vegakerfinu og það verði ekki sami munur á bifreiðagjaldi sem er að finna í dag og tengist losuninni. Við munum ná að leggja áherslu á á orkuskipti í samgöngum með öðrum hætti, t.d. með kolefnisgjaldinu og með sérstökum vörugjöldum á slíka bíla. Við höfum nú þegar boðað að við viljum ekki fá slíka bíla eftir árið 2030, nýja innflutta. Sjáum hvernig útlitið verður þegar að því kemur. En þessi stefnumörkun hefur verið ákveðin.

Næst að áfengi og tóbaki sem selt er í tollfrjálsum verslunum. Það ber lægra vörugjald en í öðrum verslunum hérlendis. Á áfengi er lagt 10% af áfengisgjaldi á söluna og á tóbak er lagt 40% af tóbaksgjaldi á söluna. Hér er lagt til að draga úr afslætti í tollfrjálsum verslunum þannig að áfengisgjaldið fari úr 10% í 25% og tóbaksgjald um 40% í 50% af því sem almennt gildir. Hér er um að ræða aðgerð stjórnvalda á tekjuhlið sem miðar að því að draga úr þenslu. Gert er ráð fyrir að þetta gæti skilað um 700 milljónum í ríkissjóð.

Greiðsla kostnaðar vegna reksturs Fjármálaeftirlits er hér næst. Í frumvarpinu er lagt til að gjöldin taki minni háttar breytingum að mestu til hækkunar með hliðsjón af breytingum á áætluðum kostnaði, m.a. vegna almennra verðlagshækkana. Þá er lagt til að gjöld fyrir afgreiðslu umsókna um skráningu eftirlitsskyldra aðila lækki úr 1 millj. kr. í 300.000 kr. Nauðsynleg vinna við afgreiðslu þeirra hefur reynst mun minni en vinna við afgreiðslu umsókna um starfsleyfi eftirlitsskyldra aðila og því er talið unnt að lækka gjaldið. Jafnframt er lagt til að Seðlabankanum verði falið að endurgreiða aðilum sem greitt hafa hærra gjaldið vegna afgreiðslu umsóknar um skráningu þennan mismun á því og lækkaða gjaldinu, þ.e. 700.000 kr. vegna hverrar afgreiðslu.

Þá er það greiðsla kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara. Hér er lögð til lækkun á gjaldhlutfalli af álagningarstofni samkvæmt lögum um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara. Gjaldinu er ætlað að standa undir kostnaði við rekstur stofnunarinnar og er lagt á gjaldskylda aðila. Í lögum er kveðið á um að tekið skuli tillit til rekstrarafgangs eða rekstrartaps af starfsemi umboðsmanns skuldara þegar ákveðin er fjárhæð gjalds fyrir næsta almanaksár. Útlán gjaldskyldra aðila þann 31. desember 2021 voru um 4.202 milljarðar kr. og áætlaður kostnaður vegna reksturs umboðsmanns skuldara var um 279,5 millj. kr. Álagningarprósentan verður því 0,006651% á árinu 2023. Álagningarstofn gjaldsins er öll útlán gjaldskyldra aðila.

Næst að gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra og útvarpsgjaldi. Þar er lögð er til 7,7% hækkun í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins. Samkvæmt því verður gjaldið 13.284 kr. á hvern gjaldanda við álagningu opinberra gjalda á næsta ári vegna tekna ársins 2022. Hér er áætlað að hækkunin skili um 212 millj. kr. í viðbótartekjur á ári. Jafnframt er gert ráð fyrir því að sérstakt gjald vegna Ríkisútvarpsins verði hækkað úr 18.800 kr. í 20.200 kr. í takt við verðlagsbreytingar frumvarpsins. Áætlaðar viðbótartekjur af hækkuninni nema 388 millj. kr. árlega.

Rekstrarkostnaður hjúkrunarrýma og kostnaðarþátttaka heimilismanna er sérstakur liður í frumvarpinu. Þar er lagt til að í lögin komi nýtt ákvæði til bráðabirgða við lög um málefni aldraðra. Það er gert til að koma í veg fyrir að kostnaðarþátttaka heimilismanna á dvalar- og hjúkrunarheimilum aukist við það að tenging við tekjur maka var afnumin. Jafnframt er lagt til að gildistími ákvæðis til bráðabirgða í lögunum verði framlengdur. Það leiðir til þess að heimilt verður að verja fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra til að standa straum af rekstrarkostnaði hjúkrunarrýma fyrir aldraða á árinu 2023.

Í frumvarpinu er enn fremur lögð til framlenging á ákvæðum til bráðabirgða til að sporna gegn því að víxlverkanir örorkubóta almannatrygginga og örorkulífeyris lífeyrissjóða hefjist að nýju á næsta ári. Þá er gert ráð fyrir að fjárhæð frítekjumarks vegna atvinnutekna örorkulífeyrisþega við útreikning tekjutryggingar og heimilisuppbótar verði sú sama á næsta ári og á þessu ári. Frítekjumarkið er nú 1.315.200 kr. á ári sem jafngildir 109.600 kr. á mánuði. Verði það ekki framlengt mun frítekjumark örorkulífeyrisþega vegna atvinnutekna lækka í 300.000 kr. og leiða til lækkunar bóta hjá þeim örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum sem hafa atvinnutekjur yfir frítekjumarkinu. Að óbreyttu ákvæði hefðu útgjöldin lækkað um 1,2 milljarða.

Þessi mál eru í sérstakri athugun hjá félags- og vinnumarkaðsráðherra og þar hefur starfshópur verið einmitt að skoða mögulegar breytingar á frítekjumarkinu en niðurstaða þeirrar vinnu liggur ekki fyrir. Ég vil nefna þetta sérstaklega. Eins er til sérstakrar skoðunar er jöfnunarframlag ríkissjóðs til lækkunar á örorkubyrði lífeyrissjóðanna, víxlverkun greiðslna almannatrygginga og lífeyrissjóðsgreiðslna og markviss endurhæfing fyrr í slysa- eða veikindaferlinu en nú er. Það eru því margir málaflokkar á þessu sviði sem eru til athugunar.

Næst að sóknargjöldum. Það er gert ráð fyrir að föst krónutala sóknargjalda lækki úr 1.107 kr. á mánuði samkvæmt gildandi lögum í 1.055 kr. fyrir árið 2023. Lögboðið framlag til sókna þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga breytist að öllu jöfnu í samræmi við áætlaða breytingu á meðaltekjuskattsstofni einstaklinga 16 ára og eldri, sem og fjölgun einstaklinga. Nú er hins vegar, eins og í fjárlögum fyrir árið 2022, með breytingu á lögum um sóknargjöld, gert ráð fyrir að fastsetja fjárhæð sóknargjalda. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir 2.960,7 millj. kr. í framlag til þeirra liða sem sóknargjald reiknast á að teknu tilliti til almennra aðhaldskrafna í forsendum frumvarpsins. Nemur heildarlækkun sóknargjaldsins frá gildandi fjárlögum því að 84,8 millj. kr. Lækkunin kemur til af því að við gerð fjárlagafrumvarps fyrir yfirstandandi ár gerði Alþingi tillögu um 272,4 millj. kr. tímabundna hækkun sóknargjalda í samræmi við tillögur efnahags- og viðskiptanefndar og og kom það fram sem breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2022. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2022 var gert ráð fyrir því að sóknargjöld yrðu 995 kr. á mánuði en eftir tillögu Alþingis var gert ráð fyrir 122 kr. hækkun á sóknargjöldum, sem leiddi til 272,4 millj. kr. hækkunar alls. En þessi tímabundna hækkun fellur niður ef ekki er tekin ný ákvörðun.

Gjaldskyld losun gróðurhúsalofttegunda og úrvinnslugjald er næst á dagskrá. Hér er gert ráð fyrir að fjárhæð losunargjalds verði hækkuð úr 5.767 kr. í 10.781 kr. til samræmis við breytingar á meðalverði losunarheimilda á Evrópska efnahagssvæðinu eins og það er á árstímabili sem lýkur 31. júlí árið áður. Jafnframt eru lagðar til breytingar á fjárhæð úrvinnslugjalds vegna gler- og málmumbúða, viðarumbúða, pappa og pappírsumbúða plastumbúða, heyrúlluplasts, olíuvara, svartolíu, iðnaðarrafhlaðna, iðnaðarrafgeyma og varnarefna. Að auki er lagt til að úrvinnslugjald að fjárhæð 15.000 kr. verði lagt á ökutæki við nýskráningu þeirra í stað innflutnings. Þessar breytingar munu hafa óveruleg áhrif á tekjur ríkissjóðs.

Lögð er til framlenging á ákvæðum til bráðabirgða við lög um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða og lög um tryggingagjald sem kveður á um að starfsendurhæfingarsjóðir fái ekki tekjur af almennu tryggingagjaldi á árinu 2023. Sambærilegt ákvæði hefur verið í gildi fyrir árin 2013–2022. Eftir sem áður er gert ráð fyrir óbreyttri fjármögnun frá atvinnurekendum og lífeyrissjóðum eða 0,1%. Þá er gert ráð fyrir því að samkomulag milli fjármála- og efnahagsráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra hins vegar og VIRK starfsendurhæfingarsjóðs hins vegar verði breytt til samræmis og að á árinu 2023 leggi ríkissjóður starfsendurhæfingarsjóði til framlag á fjárlögum.

Lagt er til að bráðabirgðaákvæði sem kveður á um útreikningsreglur vaxtabóta verði framlengt um eitt ár í viðbót sem þýðir að reiknireglur og viðmiðunarfjárhæðir kerfisins verði þær sömu á næsta ári og þær voru á þessu ári. Á grundvelli þeirra forsendna er áætlað að útgjöld vegna vaxtabóta nemi 1,9 milljörðum á næsta ári.

Auk 7,7% uppfærslu gjalda sem kveðið er á um í lögum um aukatekjur ríkissjóðs eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum sem talið er nauðsynlegt að gera samhliða. Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar á gjaldtöku vegna beiðna um aðfarargerðir, nauðungarsölu og þinglýsingu aðfarargerða í átt til einföldunar og má rekja tilefnið til breytts verklags og þarfa sem fylgja rafrænum þinglýsingum. Í stað þess að gjaldið nemi 1% þeirrar fjárhæðar sem fjárnáms, kyrrsetningar, löggeymslu eða lög um nauðungarsölu er krafist fyrir, þó með ákveðnu lágmarki og hámarki, verði gjaldið í öllum tilfellum hið sama. Fjárhæðin er ákveðin með hliðsjón af meðaltali þeirra fjárhæða sem greiddar hafa verið undanfarin ár vegna beiðna um fullnustugerðir og þinglýsingu þeirra. Jafnframt er gjaldtaka vegna þinglýsingar fjárnáms, kyrrsetningar og löggeymslu færð framar í ferlið, þ.e. við móttöku beiðni í stað þess þegar lögð er fram beiðni um þinglýsingu gerðar.

Þá er í öðru lagi lagðar til nokkrar breytingar vegna nauðsynlegra leiðréttinga á vísunum í lagaákvæði og viðbætur við lögin til samræmis við lagabreytingar á undanförnum árum þar sem ný leyfisskyld starfsemi hefur orðið til. Jafnframt er lagt til að kveðið verði á um gjald fyrir þjónustu í sjálfvirku tilkynningarkerfi skipa í lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Þessar tillögur munu ekki leiða til neikvæðra áhrifa á ríkissjóð.

Í frumvarpinu er lögð til breyting á lögum um fiskeldi þess efnis að árgjald í umhverfissjóð sjókvíaeldis miðist við leyfilegan hámarkslífmassa í stað leyfilegs framleiðslumagns. Jafnframt eru lagðar til tvær breytingar á verðmætagjaldi vegna sjókvíaeldis, annars vegar er gjaldhlutfallið hækkað úr 3,5% í 5% og hins vegar er viðmiðunartímabili gjaldsins breytt. Verðmætahlutfall tekur mið af meðalverði á heimsmarkaði. Fyrir lagabreytinguna var litið til meðalverðs frá ágúst til október næst fyrir ákvörðunardag en eftir breytinguna verður viðmiðunartímabilið nýjasta 12 mánaða meðaltal alþjóðlegs markaðsverðs næst fyrir ákvörðunardag. Áætlað er að tekjur ríkissjóðs af gjaldinu aukist um hálfan milljarð króna á næsta ári.

Þá að framlengingu á heimild til að greiða fé úr ofanflóðasjóði vegna hættumats á eldgosum, vatnsflóðum og sjávarflóðum. Í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu er nú í undirbúningi að hefja vinnu við gerð regluverks um hættumat og hættumatsviðmið vegna vatnsflóða og sjávarflóða. Þar sem tímabundin heimild til að nota fé ofanflóðasjóðs til að taka þátt í greiðslu kostnaðar við hættumat vegna eldgosa, vatnsflóða og sjávarflóða rennur út 31. desember á þessu ári er mikilvægt að framlengja þá heimild. Þess vegna er í frumvarpinu er lagt til að framlengd verði heimild samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II í lögunum til að nota fé ofanflóðasjóðs til að taka þátt í greiðslu kostnaðar við hættumat vegna eldgosa, vatnsflóða og sjávarflóða til 31. desember á næsta ári. Gert er ráð fyrir að hlutur ofanflóðasjóðs í kostnaði við vinnu við næsta áfanga hættumats vegna eldgosa verði allt að 65 millj. kr. á ári miðað við verðlag við framlagningu frumvarpsins. Hlutur ofanflóðasjóðs í kostnaði við vinnu við gerð hættumats vegna vatnsflóða verður allt að 50 millj. kr. á ári miðað við verðlag við framlagningu frumvarpsins og við gerð hættumats vegna sjávarflóða allt að 25 millj. kr. á ári miðað við verðlag við framlagningu frumvarpsins. Framangreindar fjárhæðir eru þó með fyrirvara um árlegar fjárheimildir.

Að lokum er að ósk Endurvinnslunnar lögð til lækkun á umsýsluþóknun á umbúðir úr stáli, áli og plasti. Miðað við þróun verðlags frá því í maí 2021 ætti skilagjald eða hækka um u.þ.b. 2 kr. Það er ljóst að slík hækkun muni leiða til raunhækkunar á gjöldum á hverja selda drykkjareiningu og þá til hækkunar á vísitölu neysluverðs að teknu tilliti til núverandi verðlagsþróunar. Ekki talin ástæða að svo stöddu til að hækka þessi opinberu gjöld.

Aðeins um mat á fjárhagsáhrifum. Eins og fram er komið eru tillögur frumvarpsins af margvíslegum toga og má hið sama segja um áhrif þeirra á ráðstöfunartekjur, verðlag og kaupmátt. Í frumvarpinu eru lagðar til 7,7% uppfærsla gjalda í samræmi við áætlaða verðbólgu í árslok. Áætlað er að verðlagsuppfærslan skili ríkissjóði 6,4 milljörðum eins og áður er rakið og þá að meðtöldum hliðaráhrifum á virðisaukaskatt. Af því nemur hækkun útvarpsgjalds og gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra samtals um 0,6 milljörðum, en þau gjöld hafa ekki áhrif á vísitölu neysluverðs. Hækkanir á gjöldum sem falla undir lög um aukatekjur ríkissjóðs nema samtals um 0,5 milljörðum. Þá mun verðlagsuppfærsla krónutölugjalda, þessi gjöld sem ég rakti áðan; áfengis-, tóbaks-, kolefnis-, eldsneytis- og bifreiða- og kílómetragjöld, auka tekjur ríkissjóðs um 5,3 milljarða og munu óhjákvæmilega hafa áhrif til hækkunar á vísitölu neysluverðs og eru þau, miðað við að halda þeim óbreyttum, áætluð um 0,2%.

Mér þykir ekki úr vegi að velta því upp í þessari umræðu hver munurinn er miðað við þá framkvæmd sem við höfum haft undanfarin ár og má segja að sé þá farið að nálgast 0,1% ef við myndum hafa haldið okkur við 2,5% hækkunina, en þetta er svona grófur útreikningur. Í því samhengi ber síðan ávallt að líta til þess sem ég rakti stuttlega áðan, að ráðstafanir sem auka tekjur ríkissjóðs draga úr þenslu í hagkerfinu og þar með úr almennum verðbólguþrýstingi. Með þeim hætti getur ríkisfjármálastefnan stutt við verðstöðugleika og dregið úr þörf fyrir hækkun stýrivaxta. Það er mikið hagsmunamál fyrir heimilin og hagkerfið í heild. Auk þess draga þessar ráðstafanir úr halla ríkissjóðs, gera hann betur í stakk búinn til að draga úr niðursveiflum til framtíðar. Þessi almennu áhrif vega þyngra gagnvart efnahagslegum stöðugleika en bein áhrif verðlagsuppfærslu krónutölugjalda á vísitölu neysluverðs eins og ljóst má vera.

Áætlað er að breytingar á álagningu vörugjalda fólksbifreiða og annarra vélknúinna ökutækja, sem felast m.a. í álagningu á sérstöku 5% vörugjaldi á allar nýjar fólksbifreiðar samhliða lækkun losunarmarka á ökutæki og lækkun á skattprósentu, skili ríkissjóði um 2,7 milljörðum í viðbótartekjur.

Áætlað er að tvöföldun á lágmarki bifreiðagjalds samhliða hækkun losunarmarka, þannig að bifreiðagjald sem lagt er á fólksbíla með losun umfram 200 grömm á kílómetra haldist óbreytt að raunvirði, skili ríkissjóði 2,2 milljörðum í viðbótartekjur.

Gert er ráð fyrir því að draga úr afslætti í tollfrjálsum verslunum og sú tekjuöflun leiðir til 700 millj. kr. hækkunar á áætluðu áfengis- og tóbaksgjaldi.

Eftirlitsgjaldið sem ég rakti vegna fjármálastarfsemi og skilavalds, þar eru minni háttar breytingar. Áætlað eftirlitsgjald á næsta ári er samtals rúmir 2,6 milljarðar og áætlað að aðrar tekjur verði 20,9 millj. kr.

Gert er ráð fyrir að heildarkostnaður Fjármálaeftirlits verði 2,8 milljarðar og gert ráð fyrir að heildarútgjöld verði um 109,1 millj. kr. umfram tekjur og verði mætt með lækkun á uppsöfnuðum rekstrarafgangi Fjármálaeftirlits. Áætlað gjald vegna fjármögnunar skilavalds eru samtals 94,5 millj. kr. sem endurspeglar áætlaðan kostnað vegna skilavaldsins. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir næsta ár er miðað við að tekjur Fjármálaeftirlitsins og skilavaldsins af eftirlitsgjaldi verði rúmar 2.459 millj. kr. og kostnaður rúmar 2.631 millj. kr. Þær fjárhæðir byggjast á rekstraráætlun sem Seðlabanki Íslands hefur útbúið og sent fjármálaráðuneytinu. Seðlabankinn hefur endurskoðað áætlunina með tilliti til verðlags og launaþróunar og er ráðgert að misræmið milli frumvarpsins og frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2023 verði leiðrétt með breytingu á síðarnefnda frumvarpinu við 2. umr. á Alþingi.

Tillaga í frumvarpinu um óbreyttar viðmiðanir vaxtabótakerfisins leiðir til þess að útgjöld vegna vaxtabóta nema 1,9 milljörðum á næsta ári. Áætlað er að tekjur ríkissjóðs af verðmætagjaldi vegna sjókvíaeldis aukist um 0,5 milljarða, þar af fara 160 millj. kr. í fiskeldissjóð. Því mun nettótekjuauki ríkissjóðs nema 340 millj. kr. Þar sem um varanlega breytingu á lagaákvæðinu er að ræða má gera ráð fyrir að tekjur muni vaxa árlega í takt við væntanlega framleiðsluaukningu og ákvæði til bráðabirgða í lögum um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð, en gildistími þess er til 2026. Það má reikna með að tekjuauki ríkissjóðs verði 650 millj. kr. árið 2024 og áætlaðar 760 millj. kr. árið 2025.

Gert er ráð fyrir að hlutur ofanflóðasjóðs í kostnaði við vinnu við næsta áfanga hættumats verði allt að 65 millj. kr. á ári. Ég rakti það áðan að þessar tölur eru allar miðaðar við verðlag við framlagningu frumvarpsins.

Aðrar breytingar hafa ýmist áhrif á tekju- og/eða gjaldahlið en samanlögð áhrif eru talin óveruleg.

Ég hef talið upp það helsta sem máli skiptir og hefur áhrif á tekju- og gjaldahliðina þannig að einhverju nemi og þar með á heildarafkomuna.

Virðulegi forseti. Ég vil að þessu sögðu leggja til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.