Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Einkarekin heilbrigðisþjónusta er oft til umræðu, kostir hennar og gallar og ýmislegt. Það var satt best að segja sláandi að sjá það í blöðunum í morgun að hún hangi á bláþræði sem er ekki gott. En hvað er einkarekin heilbrigðisþjónusta og heilsugæsla? Þetta er heilbrigðismenntað fólk sem hefur mikinn metnað fyrir því að veita sína þjónustu til þeirra sem á þurfa að halda á sem bestan og hagkvæmastan hátt. Um það snýst þetta, en hið opinbera sér um að greiða fyrir þessa þjónustu. Þetta snýst um fólk fái að veita þjónustuna á þann hátt sem það telur sem best sem heilbrigðisstarfsmenn að veita hana og þetta hefur gert það að verkum að það er töluvert mikið af heilbrigðisþjónustu sem annars hefði ekki orðið út af því að þetta rekstrarform er leyft. Þá eykst fjölbreytni í úrræðum og annað slíkt. Árið 2017 var fjármögnunarlíkani Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins breytt þannig að jafnræði varð á milli einkarekinna og opinberra stöðva. Úr varð að það komu mun fleiri heilbrigðisstarfsmenn sem vinna í heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu yfir höfuð, biðlistar styttust og allar kannanir sýna að þjónustan batnaði. Því var meiri hagkvæmni, meiri skilvirkni og þeir sem þurftu að þiggja þjónustuna voru mun ánægðari án þess að þurfa að greiða meira fyrir hana. Því er það mjög alvarlegt að það sé komið í ljós að leikurinn hefur ekki verið jafn frá 2017 og alltaf hallar meira á þá einkareknu gagnvart þeirri opinberu. Ef þessi mikilvæga þjónusta hverfur, sem þetta öfluga heilbrigðisstarfsfólks sem við höfum er að veita á sínum forsendum, hvernig það gerir sem best, þá munu heilbrigðismálin hér vera komin á vondan stað.