Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Hefur orðið stefnubreyting í rekstri framhaldsskóla landsins? Skolaðist menntasóknin út með nýju ráðuneyti og nýjum ráðherra? Með fjárlagafrumvarpinu er boðaður niðurskurður til starfsemi margra framhaldsskóla og að innheimta eigi hærri innritunargjöld af nemendum. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að sértekjur framhaldsskólanna hækki um 12,4% án þess að skýring sé gefin á því hvert eigi að sækja slíkar tekjur.

Innritunargjöld í framhaldsskólanum eru í dag 6.000 kr. og ef innheimta á hærri gjöld af framhaldsskólanemendum er stjórnendum skólanna ekki kunnugt um þau áform. Starfsnámsskólar hafa mjög takmarkaðar heimildir til að innheimta efnisgjöld. Skólar geta tekið þjónustugjöld, t.d. vegna þráðlauss nets, pappírskostnaðar, og svo nemendafélagsgjöld. Sértekjur framhaldsskólanna eru því mjög takmarkaðar og skólum ómögulegt að hækka sértekjur til að eiga fyrir rekstri. Það er furðulegt, forseti, að auka eigi álögur á heimili landsins með þessum hætti í gegnum innheimtu á skólagjöldum í framhaldsskólunum.

Í fjárlagafrumvarpi 2023 er gert ráð fyrir að nemendum fækki um 40 ársnemendur á Akureyri og sömu fækkun á Suðurnesjum þó að vitað sé að nemendum sé að fjölga á þeim svæðum. Alls er verið að fækka nemendum um 100 ársnemendur milli ára á landinu. Flestir skólar standa í stað en það fjölgar um 60 ársnemendur í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra sem er hlutfallslega langt umfram aðra skóla. Þar fara ársnemendur úr 400 upp í 460. Næstmesta fjölgunin er svo í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, sem er starfsmenntaskóli, og þar hefur nemendum fjölgað mikið undanfarið. Það er niðurskurður í Verkmenntaskólanum á Akureyri, Menntaskólanum á Akureyri, Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Menntaskólanum í Kópavogi og það eru engar skýringar gefnar.

Ég spyr því: (Forseti hringir.) Er það ekki augljóst, forseti, að menntasóknin hefur breyst í undanhald og flótta með nýjum ráðherra?