Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[15:24]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttur fyrir ræðuna. Ég átti ekki von á því að vera sammála henni þegar hún steig upp í pontu og hún olli engum vonbrigðum með það. Það liggur auðvitað fyrir að málið er stórt og mikið og þess eðlis að við ræðum um hagsmuni allrar þjóðarinnar, allra atvinnugreina. Hagsmuni sem teygja anga sína inn í öll lög samfélagsins. Við verðum öll að geta rætt þessi mál — og þar tala ég einnig til þeirra sem styðja þessa tillögu og jafnvel aðild — öðruvísi en að stilla málum þannig upp að Evrópusambandið sé alvont eða algott, þar sé annaðhvort Kölski eða Guð á ferðinni. Auðvitað er það ekki þannig og alveg rétt sem kom fram í ræðu hv. þingmanns, það eru bæði kostir og gallar við aðild en síðan er hagsmunamat fólks misjafnt. Við þurfum einhvern veginn að koma umræðunni upp úr því að þetta sé algott eða alslæmt, heldur ættum við að láta þetta eðlilega hagsmunamat eiga sér stað með málefnalegri hætti. Það held ég að eigi við um okkur öll.

Ég verð að segja að ég skil ekki rökin fyrir því, nú kem ég að umræðu hv. þm. Loga Einarssonar og Diljár Mistar Einarsdóttur, að það sé ósmekklegt að endurskoða hagsmunamat okkar í alþjóðlegu samstarfi þegar það verður stríð í Evrópu. Danir, Norðmenn, Svíar og Finnar gerðu það. Evrópusambandið gerði það sjálft og NATO sömuleiðis. Kína gerði það og Bandaríkin. Það hriktir í öllum fjölþjóðastofnunum heimsins þegar Rússland af öllum löndum ræðst á annað ríki í Evrópu. Ég vil gjarnan fá það fram með skýrum hætti hjá hv. þingmanni (Forseti hringir.) hvort það sé þá þannig að Danir, Svíar, Finnar, Evrópusambandið, Bandaríkin, Kína og allar heimsins fjölþjóðastofnanir hafi verið ósmekklegar við íbúa Úkraínu að gera þetta endurmat sem allir gerðu?