Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[17:46]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Að greiða atkvæði eða ekki um hvort tala eigi við Brussel er spurningin, a.m.k. í dag hér inni. Sitt sýnist hverjum um það og oft blandast inn í þá umræðu hvort tala eigi meira við Brussel eða hvort aðild sé af hinu góða eða illa og hér heyrast ansi oft notuð orð eins og ég tel, ég tel þetta og ég tel hitt, ég tel að hagsmunum okkar sé best borgið í Evrópusambandinu eða ég tel að hagsmunum okkar sé best borgið utan Evrópusambandsins. Já, vandamálið er kannski það að við kláruðum aldrei viðræður svo að við vitum ekkert um hvað við erum að ræða. Við vitum ekki hvort einhverjar undanþágur yrðu veittar eða ekki. Við getum bent á að eitthvað sé sögulega svona og sögulega hitt en eins og hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir hefur bent á þá segir sagan ekki alltaf til um allt saman, a.m.k. ekki saga Sjálfstæðisflokksins. Það eru að sjálfsögðu einhverjir kostir við það að ganga í Evrópusambandið. Við vitum öll að það gætu verið einhverjir kostir. Hvort það er að verðbólgan verði stöðugri eða ekki, það vitum við ekki endilega núna. Það eru örugglega einhverjir gallar líka en hverjir þeir eru nákvæmlega, það vitum við heldur ekki. Við virðumst ekki einu sinni geta rætt um það hver yrðu markmiðin ef við ætluðum að halda áfram viðræðum. Það er kannski ekkert skrýtið að allt þetta leiði til þess að það er mikil óvissa um það hvað það þýði að vera með í Evrópusambandinu.

Þessi tillaga felst í því að láta þjóðina, en ekki okkur 63 sem telja hitt og þetta, sumir vilja meina að það hafi verið vitlaust talið, ráða því hvort það eigi að eyða þessari óvissu. Það er nefnilega þannig að fólk vill að við sem hér erum inni tökum upplýstar ákvarðanir. Það að spyrja þjóðina hvort hún vilji að við skoðum það að eyða þessari óvissu og þar með tala áfram við Evrópusambandið og athuga hvaða undanþágur og hvaða kostir og hvaða gallar væru við aðild, með því að spyrja þjóðina erum við að iðka lýðræði og lýðræði er nokkuð sem við Píratar styðjum. Þess vegna styðjum við þessa tillögu hér um að spyrja þjóðina. En það virðist vera einhver ótti við það að láta þjóðina ráða. Kannski er það ótti einhverra þingmanna eða flokka við að þeir hafi kannski aftur haft rangt fyrir sér.