Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[18:26]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, Ísland er gjöfult land og við erum mjög heppin hversu lágt atvinnuleysisstig er á Íslandi. Þar koma til ýmsir þættir. Við erum auðvitað óskaplega fá. Við höfum notið fádæma vinsælda ferðafólks undanfarin ár og það varð algjör sprengja núna aftur eftir að ferðalögin komust aftur á stjá þannig að núna er skortur á vinnandi fólki á Íslandi. Við njótum þeirra sérstöðu. En þegar við horfum svo á verðbólguna þá er ekki hægt að horfa fram hjá því að við erum með húsnæðisliðinn inni í okkar verðbólgu en þegar við ætlum að bera okkur saman við Evrópu þá tökum við húsnæðisliðinn út og horfum ekki á það að við erum auðvitað sjálfbær með okkar orku. Við erum hérna með hitaveitu sem ríki Evrópu eru ekki með. Það er beinlínis óréttlátt að fara að bera þetta saman þegar orkuverð er í hæstu hæðum vegna þess að þessi ríki eru ekki með hitaveitu eins og við. Það eru aðstæður sem kalla á þetta ástand.

Það er tómt mál að tala um að við séum að fara að taka upp einhvern dollar. Þetta er í rauninni tilraun til að afvegaleiða umræðuna. Það eru ekki allar þjóðir sem eru í Evrópusambandinu með evru en þær hafa á einhvern hátt valið að tengja gjaldmiðilinn sinn við evru, eins og t.d. Danir, til þess að það sé meiri stöðugleiki í gjaldmiðlinum, af því að þeir telja sig vera örríki, hversu fyndið sem okkur finnst það. Okkar gjaldmiðill hins vegar bara sveiflast eftir vindum og það er alveg brjálæðislega dýrt. Þetta hefur svo ofboðsleg áhrif á velsæld þjóðarinnar og við verðum að taka það alvarlega.