Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[19:21]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu núna þegar ég hef mál mitt efnislega um það sem er hér fyrir framan okkur og árétta það sem ég sagði rétt áðan í andsvari: Við erum að leggja það til að leita til þjóðarinnar um ákveðna leiðsögn. Við erum ekki að segja við þjóðina að hún eigi að ákveða það núna hvort að það eigi að ganga í Evrópusambandið eða ekki að ganga í Evrópusambandið, heldur einfaldlega hvort það eigi að hefja viðræður við Evrópusambandið. Það getur meira en vel verið að slík þjóðaratkvæðagreiðsla færi þannig að þjóðin segði bara nei, og þá liggur það fyrir, þá er búið að afgreiða þetta mál í þessari lotu. Þannig er bara hollt og gott að gera. Og af hverju er gott að gera það í þessu tiltekna máli? Það er vegna þess að við höfum verið að ræða um Evrópumálin í þessu samfélagi í áratugi. Þetta er sama umræðan aftur og aftur, en auðvitað tekur hún breytingum eins og Evrópusambandið tekur breytingum, eins og hagsmunir Íslands taka breytingum, eins og þjóðir taka breytingum, eins og tíðarandi tekur breytingum og allt slíkt. En alltaf dúkkar umræðan upp aftur og alltaf er sett pottlok á hana: Það er ekki tímabært að ræða þetta. Við eigum ekki að ræða þetta. Mér finnst að við eigum ekki að fara inn. Þið hafið ekkert um það að segja þarna úti.

Evrópuríkin hafa mörg hver farið í gegnum þetta ferli og sótt um aðild og gerst meðlimir. En það hefur líka gerst að Evrópuríki hafa sagt: Nei, ég hef ekki áhuga á að vera þarna inni. Og það hefur líka gerst að ríki hafi gengið út úr Evrópusambandinu. Þetta er allt svo eðlilegt og lýðræðislegt. En aðalatriðið er að í öllum þessum tilfellum sem ég er að nefna hefur þjóðin yfirleitt verið spurð. Þjóðin var spurð um það í Bretlandi hvort hún vildi vera inni eða úti. Hún vildi vera úti. Það er lýðræðislegt og gott. Ég er ekkert endilega sammála því að það hafi verið gott fyrir Breta en þeir ákváðu að gera það þannig. Þetta höfum við aldrei fengið að afgreiða hér á Íslandi og það er þess vegna sem þetta mál er lagt fram.

Og varðandi tímapunktinn, ef ekki nú, þá hvenær? Öll Evrópa er að breytast. — Öll Evrópa er að breytast. Það er ógn að ryðjast inn í Evrópu af áður óþekktum skala. Við erum eiginlega komin í ástand sem ríkti hér í kalda stríðinu og engan hefði órað fyrir fyrir ekki mjög löngu síðan. Þetta þýðir auðvitað að þjóðir Evrópu, þjóðir álfunnar, koma sér saman um einhvers konar viðbragð. Hér er komin ógn, staða okkar er að breytast. Það er komið eitthvað nýtt hérna. Hvernig ætlum við að takast á við það? Ætlum við að takast á við það með því að vera hvert að pukra í sínu horni eða ætlum við að þétta raðirnar og sýna þessum nýja óvini að við erum saman? Þetta er nákvæmlega það sem gerist í Finnlandi. Þetta er nákvæmlega það sem gerist hjá Dönum en með öðrum hætti. Þetta gerist hjá Evrópusambandinu í heild sinni og þetta gerist hjá Bandaríkjamönnum og þetta gerist hjá Kínverjum. Þetta gerist úti um allt, að menn meta stöðu sína með nýjum hætti af því að það er komin ógn. Það er ein þjóð að ráðast á aðra og þetta er að gerast hér í bakgarðinum hjá okkur. Nágrannaþjóðir okkar eiga landamæri beinlínis að þessum stríðsátökum. Þetta er ekki fjær okkur en það. Það er ástæðan fyrir því að tímasetningin núna er ákaflega góð. Og halda menn að það hafi verið einhver tilviljun að við sáum viðhorfin strax breytast í skoðanakönnunum án þess að það hafi verið einhver sérstök umræða um Evrópusambandið í sjálfu sér, að um leið og Pútín hefur þennan stríðsrekstur þá er svar þjóðarinnar, án þess að skoðanadálkar dagblaðanna hafi verið fullir af einhverjum áróðri eða einhverju slíku, að fylgið við Evrópusambandsaðild og nánari Evrópusamband orðið mun meira? Það er vegna þess að fólk í þessu landi upplifir þennan breytta veruleika, það skynjar hann og það skilur hann og áttar sig á því að eitt viðbragðið er mögulega það að við ættum að þétta raðirnar. Ekki endilega, eins og sagt var hér áðan, í einhver viðleitni til að vígbúast og setja upp her út um allar koppagrundir, en það er auðvitað eitt af því sem við þurfum að líta til sem er svona varnarelementið í þessu öllu, heldur líka að því stærri og veigameiri sem vettvangurinn er þar sem við hér höfum samráð og samtal um það sem snýr að okkur, bæði þá innan og gagnvart utanaðkomandi ógn, því betra. Þess vegna segi ég: Ef ekki nú, hvenær þá?

Við erum auðvitað að skoða þetta mál í því samhengi að atburðarásin í þessu er heldur ekki í neinu tómarúmi. Hér sótti ríkisstjórn um aðild að Evrópusambandinu og sú vinna fór öll af stað. Það var mjög gagnrýnivert, fannst mér, á þeim tíma að þjóðin skyldi ekki hafa verið spurð áður en farið var af stað í vegferðina og það veikti það ferli alveg verulega. Þess vegna er nú einmitt verið að ræða um að spyrja þjóðina og fá leiðsögn frá henni, umboð frá henni. Það sem gerist síðan í ferlinu í kringum kosningarnar 2013 er að mínu mati algerlega dæmigert fyrir það hversu langt menn geta seilst til þess að láta flokkshagsmuni sína vega þyngra en þjóðarhagsmuni þegar sex þingmenn, sem verða síðan ráðherrar eftir kosningarnar, segja skýrt og afdráttarlaust aftur og aftur: Þjóðin á að segja okkur hvort við höldum viðræðunum áfram. Það er þjóðin sem á að ráða. Við eigum að setja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta var sagt í kosningabaráttunni, nokkrum dögum fyrir kosningar. Meira að segja þessir sex þingmenn urðu ráðherrar í ríkisstjórn. Sú ríkisstjórn ákvað að spyrja ekki þjóðina þvert á það sem sagt var fyrir kosningarnar heldur senda einhvers konar bréf í skjóli nætur um einhver meint viðræðuslit. Það magnaða í þessu var að það er Alþingi Íslendinga sem tekur þá ákvörðun að fara í viðræðurnar en Alþingi Íslendinga er ekki einu sinni spurt þegar menn fóru af stað í þessi meintu slit.

Það er í þessu samhengi sem þessi tillaga er lögð fram hér. Þarna fæddist þetta hugtak, pólitískur ómöguleiki, sem aðeins hefur verið rætt um í þessari umræðu. Við skulum aðeins staldra við það hugtak vegna þess að það hugtak er notað af stjórnmálafólki og núna þremur stjórnmálaflokkum sem allir hafa notað þessi rök sem einhvers konar forskrift að því að það sé ekki hægt að spyrja þjóðina vegna þess að mögulega svarar þjóðin einhverju sem ríkisstjórnin er ekki sammála. Það gæti verið staðan. Það er með öðrum orðum ekki hægt að halda þjóðaratkvæðagreiðslu á Íslandi nema við vitum að ríkisstjórnin sé sammála niðurstöðunni.

Skoðum þetta aðeins út frá hefðbundinni lýðræðislegri hugsun. Er það þannig að stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar eigi að hafa þetta tangarhald á þjóðinni, að vilji hennar skipti engu máli í risastórum hagsmunamálum sem barist er um ár eftir ár, áratug eftir áratug vegna þess að þjóðin gæti sagt eitthvað annað en það sem ríkisstjórninni finnst að eigi að gera?

Þetta er ekkert flókið. Við eigum að fara í þessa þjóðaratkvæðagreiðslu og ef menn treysta sér ekki til að fara eftir forskrift þjóðarinnar þá hafa menn ekkert í pólitík að gera. Menn sækja umboð sitt til almennings og ef menn þora ekki að spyrja þennan sama almenning í risavöxnu hagsmunamáli sem er að springa algerlega út af þeirri ógn sem við höfum öll fjallað hér um í ræðum okkar í dag og felst í innrás Rússa í Úkraínu, ef við þorum ekki að leita leiðsagnar þjóðarinnar þegar þessi ógn knýr dyra þá eigum við ekki að vera í stjórnmálum. Flóknara er það ekki.

Mér finnst að við þurfum svolítið að skoða málið í þessu sögulega samhengi. Við eigum líka að hafa það í huga þegar við förum inn í hin efnislegu blæbrigði þess hvort við eigum að vera þarna inni eða ekki, að ESB er ekkert einhver óumbreytanlegur fasti. Hagsmunir ESB eru ekki óumbreytanlegir. Hagsmunir Íslands eru ekki óumbreytanlegir, þeir breytast. Þeir breytast með tæknibreytingum, viðhorfum, þeir breytast með nýjum áherslum og kröfum í mannréttindum og það kallar á sífellda umræðu og endurmat. Rök sem áttu við fyrir tíu árum eiga ekki endilega við í dag þannig að það er vel tímabært að taka upp þessa umræðu af miklu meiri þunga en verið hefur. Við erum ekki að fara fram á að þessi ríkisstjórn gangi í Evrópusambandið. Við erum bara fara fram á það að þjóðin hafi eitthvað um það að segja hvernig farið er með hagsmuni hennar.

Svo vil ég líka nefna hér eitt að lokum af því að tíminn er að hlaupa frá mér og ég kemst ekki yfir allt það sem ég ætlaði að fara yfir. Það er að mér finnst alltaf mikilvægt að hugsa um það líka þegar við erum að tala um Evrópusambandið, af því að okkur er svo tamt um, eðlilega, að velta fyrir okkur okkar hagsmunum, þ.e. líka hvað við getum komið með að borðinu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Við erum alltaf að stæra okkur af því hversu framarlega við stöndum t.d. í mannréttindamálum. Mætum með það að borðinu. Það eru nú þjóðir þarna innan borðs sem veitti nú heldur betur ekki af smá tilsögn í því hvernig hægt væri að haga mannréttindum. Hvernig væri að fást við þessar þjóðir þar á þeim vettvangi? Við tölum um hvað við eigum frábæran sjávarútveg, tæknivæddan og flottan. Við tölum um orkumálin okkar og auðlindirnar okkar og alla þekkinguna og þekkingarhagkerfið sem orðið hefur til við þetta. Mætum með þetta að borðinu, ekki til að gefa frá okkur auðlindirnar heldur til þess að búa til viðskiptatækifæri í kringum þetta, íslenskum almenningi til heilla.

Ég vil ljúka þessu með því að segja að það er enginn þingmaður, leyfi ég mér að fullyrða, enginn þeirra sem standa að þessari tillögu sem myndi nokkru sinni samþykkja að ganga inn í Evrópusambandið ef það myndi þýða einhvers konar framsal á auðlindum þjóðarinnar, hvort sem við erum að tala um fiskveiðar, fiskstofnana okkar eða orkuauðlindina eða hvað það er. Þetta er gott mál og ég hvet þingheim til að styðja það.