Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

hækkun skattleysismarka og lágmarksframfærslu lífeyrisþega.

4. mál
[20:08]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég segi það alveg hreint út að ég mun styðja þá breytingartillögu og við þurfum bara að vona að það sé verið að greiða atkvæði um hana seint á nóttu og að þingmenn stjórnarinnar ýti á vitlausan takka og segi bara já, þeir séu búnir að ýta svo oft á já-takkann. Það er líka mikilvægt að átta sig á því að það er auðvelt að ná í þessa peninga sem ríkissjóður kannski missir við það að gera þetta. Það er auðvelt að ná í þá, ekki bara með stiglækkandi persónuafslætti heldur líka með því að setja stighækkandi eða þrepaskiptan fjármagnstekjuskatt á fólkið sem er að greiða sjálfu sér 70–80 millj. kr. á mánuði. Það eru breiðu bökin og þar er auðvelt að ná í peninginn. Það þarf líka að skoða útsvar milli sveitarfélaganna og framlög ríkisins og tryggja að sveitarfélögin geti sinnt þeirri félagslegu þjónustu sem við erum búin að færa yfir á þau. Ég vona svo sannarlega að dropinn holi steininn. En því miður þá held ég að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sé kannski ekki að hlusta mikið á það sem almenningur í landinu er að kvarta yfir.