Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

hækkun skattleysismarka og lágmarksframfærslu lífeyrisþega.

4. mál
[20:09]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir síðara andsvar. Ég get tekið undir það að ég el ekki von í brjósti, trúverðuga, um að það sé verið að hlusta. Hér hafa verið neyðaróp í samfélaginu og ítrekað verið að hrópa á hjálp. En hér virðist ekki heyrast mikið. Sem dæmi þá getum við talað um þessa greiðvikni að hækka framfærslu almannatrygginga um 3% í sumar. Frábært, alveg frábært í allri þessari verðbólgu, það var nú ekkert smáræði, sér í lagi vegna þess að allir þeir sem ekki höfðu úr neinu að moða nema almannatryggingum voru skertir á móti ef þeir þurftu að nota einhverja framfærslu eða stuðning frá sveitarfélögum í formi húsnæðisbóta eða sérstakra húsaleigubóta eða hvaðeina annað. Það var bara skert í staðinn. Þannig að þegar upp var staðið var þetta bjarnargreiði og viðkomandi stóð uppi í mínus. Ég er að vona að greiðviknin hjá þeim verði nú í aðeins betra formi næst. En því miður, hv. þingmaður, þá er ég ekkert rosalega bjartsýn á að þetta gangi í gegn og ég hefði viljað fara á flug og segja meira um hvar við gætum sótt enn þá frekar peninga, hvort sem það væri í stórútgerðina eða bankaskatta sem hæstv. fjármálaráðherra er svo umhugað um að lækka, helst niður í 0 þó að bankarnir hafi skilað yfir 80 milljarða kr. hagnaði í fyrra og greitt sér út yfir 50 milljarða í arðgreiðslur. En það eru í rauninni bognu bökin, hv. þingmaður, sem má beygja meira og ég velti því fyrir mér: Er hægt að beygja þau endalaust án þess að þau brotni? Einhvers staðar stendur: Svo bregðast krosstré sem önnur, þannig að það hlýtur einhvern tímann að enda með því að nóg sé komið.