Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

hækkun skattleysismarka og lágmarksframfærslu lífeyrisþega.

4. mál
[20:14]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Mig langar til að byrja á því að nefna hvernig í rauninni þótti sjálfsagt þegar verið var að forgangsraða fjármunum að skella hér á þriðja skattþrepinu, skattþrepi sem átti sérstaklega að hjálpa tekjulágu fólki. Þetta kostaði ríkissjóð yfir 20 milljarða kr. Sú tillaga sem ég er að mæla hér fyrir fyrir hönd okkar allra í Flokki fólksins mun kosta ríkissjóð um 32 milljarða kr. en hún nýtist einungis og eingöngu þeim sem þurfa virkilega á því að halda. Það sem verra er með þennan kostnað, yfir 20 milljarðana, sem fór í þetta þriðja skattþrep: Það erum við sem fáum að njóta þess fyrst, við sem erum með milljónir á mánuði fáum líka að nýta okkur lægsta skattþrepið. Það er með slíkum ólíkindum að koma með öll þessi útgjöld úr ríkissjóði. Hvers vegna í ósköpunum var þá ekki þetta þriðja skattþrep einfaldlega þannig að það var jafnvel enn þá lægra fyrir þá sem eru í fátækt og eru skattlagðir þar?

Ég skildi ekki alveg spurninguna hjá hv. þingmanni, hann fylgir henni enn betur eftir þegar hann er að tala um millifærslukerfið okkar og allt það. Ég hreinlega fattaði hana ekki, ef ég á að segja alveg eins og er, þannig að komdu fattaranum mínum í lag, hv. þingmaður, í seinna andsvari.