Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

hækkun skattleysismarka og lágmarksframfærslu lífeyrisþega.

4. mál
[20:22]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég kem hingað upp til að lýsa stuðningi mínum við þetta góða mál og þakka hv. þm. Ingu Sæland og hennar meðflutningsmönnum fyrir að leggja það fram og vekja máls á þessu enn á ný. Ég ætla ekki að tala lengi, enda er þetta mál eitthvað sem myndi kallast á góðri íslensku „no brainer,“ eða sjálfsagt mál. Það hefur margoft verið sýnt fram á það að hækkun á skattleysismörkum er sanngjarnasta skattalækkunin. Það er sú skattalækkun sem nýtist best þeim hópi sem þarf á henni að halda. Það er svolítið áhugavert að þetta hefur alltaf verið látið sitja á hakanum líkt og margt annað sem snertir einn viðkvæmasta hóp samfélagsins. Eins og hv. þm. Inga Sæland benti á hér áðan þá kostar þetta ekkert mikið meira en þær skattalækkanir sem hefur verið ráðist í sem nýtast jafnvel okkur hátekjufólkinu. Þetta hefur alltaf verið látið sitja á hakanum. Í góðæri er ekki rétti tíminn, með vísan til misgáfulegra og misumdeildra hagfræðikenninga, og í hallæri er ekki til peningur.

Mig langar hins vegar líka að tala um að þetta mál rímar ágætlega við stefnumál okkar Pírata til nokkurra ára og þótt ég viti að hv. þm. Inga Sæland er ekki algjörlega sammála mér og okkur hvað það varðar þá langar mig samt að nefna það. Þetta er hugmyndin um skilyrðislausa grunnframfærslu sem gengur sannarlega út á að allt fólk í þjóðfélaginu geti lifað mannsæmandi lífi algjörlega óháð því inn í hvaða aðstæður það fæðist, í hvaða stöðu það er og hvaða tækifæri það hefur að öðru leyti.

Mig langar til að lesa upp úr þingsályktunartillögu sem Píratar hafa lagt fram á fyrri þingum fyrir löngu síðan vegna þess að mér finnst hún vel orðuð. Ég vil byrja á að taka fram að það er ekki eingöngu þetta réttlætismál sem veldur því að skilyrðislaus grunnframfærsla er eitthvað sem við teljum vera framtíðina, hvernig sem á það er litið. Þótt hún sé kannski ekki eitthvað sem við getum gert á morgun og lagt niður allt okkar kerfi, er hún að okkar mati óhjákvæmileg þróun. Helstu ástæður fyrir því eru tækniframfarir, loftslagsbreytingar og aðrar samfélagsbreytingar sem knýja okkur til að endurskoða allt kerfið, allt okkar vinnukerfi og annað.

En ég ætla að grípa aðeins niður í þingsályktunartillögu sem Píratar lögðu fram fyrir nokkru síðan, með leyfi forseta:

„Fátækt á Íslandi er að miklu leyti afleiðing íslenskrar velferðarstefnu sem byggist á skilyrtri velferðarforsjá í formi lágmarksaðstoðar og áherslu á góðgerðarstarfsemi og ölmusu fyrir þá verst settu. Íslenska ríkið hefur í gegnum árin sett lög og reglugerðir sem veita fólki svo lágar bætur að upphæðirnar eru innan fátæktarmarka. [...] Rannsóknir sem gerðar hafa verið á lífi og aðstæðum fátækra sýna mjög greinilega hversu alvarlegar afleiðingar fátækt hefur fyrir samfélagið í heild. Líf fátækra einkennist af miklu andlegu álagi, vanlíðan og niðurlægingu sem leiðir til skertrar sjálfsvirðingar, sorgar, kvíða og niðurbrots á andlegu og líkamlegu heilsufari.“ — Þetta verður vítahringur. Það er engin aðstoð fólgin í því að veita fólki ölmusu. Kerfið okkar á ekki að virka þannig. — „Fátækt stuðlar að því að einstaklingar, þar á meðal börn, heltist úr samfélagslestinni, glati samkeppnisfærni og njóti þar af leiðandi ekki þeirra tækifæra og gæða sem teljast sjálfsögð og eðlileg í samfélaginu.“

Það er einmitt meginhugmyndin að baki skilyrðislausri grunnframfærslu að við séum ekki alltaf að veita einhverja skilyrta ölmusu. Kerfið er byggt á algerlega röngum forsendum. Það er ekki byggt á hugmyndinni um að hver einasta manneskja hafi jafnt gildi, eigi jafnan rétt og hafi jöfn tækifæri á að sjá sér farborða óháð öllu öðru, heldur í rauninni á því að þeir sem meira mega sín eigi að vera góðir við þá sem minna mega sín. Þetta er að okkar mati ekki rétta sjónarhornið á nútímasamfélag.

Mig langar að grípa aftur niður í þessa gömlu þingsályktunartillögu og lýk svo máli mínu, með leyfi forseta:

„„Það er ekki góðgerðarstarfsemi, heldur réttindi, ekki ölmusa heldur réttlæti, sem ég tala fyrir.“ Hugmyndin að skilyrðislausri grunnframfærslu á sér langa sögu innan heimspekinnar og hagfræðinnar en upphafið að hugmyndinni má rekja til ársins 1516 þegar enski heimspekingurinn og lögfræðingurinn Thomas More skrifaði bókina Útópíu. Í bókinni lýsir More hugmynd sinni að eins konar fyrirmyndarsamfélagi þar sem áhersla er lögð á að fyrirbyggja glæpi með útrýmingu fátæktar frekar en að notast við refsikerfi í samfélagi þar sem beinlínis er stuðlað að glæpum með gífurlegum ójöfnuði.“

Þetta er enn annar þáttur í hugmyndafræðinni sem liggur þarna að baki. Þetta er réttlætismál og hagfræði framtíðarinnar. Þetta er eitthvað sem er óhjákvæmilegt og við munum þurfa að ræða og leysa með öðrum hætti en við gerum í dag.