Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

hækkun skattleysismarka og lágmarksframfærslu lífeyrisþega.

4. mál
[20:49]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessi skýru svör. Spurningin mín á að einhverju leyti rætur að rekja til þess að það kemur ekki alveg skýrt fram í þessu máli hver þessi efri mörk eru þegar persónuafslátturinn á að hafa fjarað alveg út. En mér heyrist á hv. þingmanni að hann myndi ekki byrja að fjara út fyrr en einhvers staðar eftir 700.000 kr. Það er þá von flutningsmanna að hægt yrði að greiða að verulegu leyti upp kostnaðinn af hækkun skattleysismarka með því, þótt hann byrji ekki að fjara út fyrr en svona ofarlega. Já, ég þarf kannski að skoða betur ef það eru til einhverjir útreikningar á bak við þetta. Eins og hv. þingmaður heyrir hef ég ákveðnar efasemdir um að þetta sé endilega besta mögulega leiðin að fara. En mér finnst margt mjög gott í greinargerð málsins og er sammála í grófum dráttum um mikilvægi þess að beita skattkerfinu mjög markvisst til að verja kjör þeirra tekjulægri. Ég held um leið að það sé mikilvægt að jaðarskattbyrðin verði ekki alveg ofboðslega þung hjá þeim sem tilheyra efri millitekjuhópunum, getum við sagt, hjá fólki sem er með 600.000–700.000 kr., af því að þar er jaðarskatturinn þegar mun hærri á Íslandi en víða annars staðar, vegna t.d. tekjutenginga í barnabótakerfinu, vaxtabótakerfinu o.s.frv. Að öðru leyti þakka ég hv. þingmanni fyrir þessi skýru svör.