Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

kosningalög.

14. mál
[21:46]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir að flytja þetta mál. Þannig er að hv. þingmaður og hennar flokkur hafa vakið máls á vandamálum varðandi núverandi kosningafyrirkomulag áður, en þarna er um að ræða kannski betur útfærða hugmynd en komið hefur áður í frumvarps- eða ályktunarformi frá þessum þingflokki. Ég myndi segja að það sem hefur komið á daginn varðandi kosningakerfið eins og það er byggt miðað við kosningalögin frá 1999/2000 er það, eins og hv. þingmaður vakti athygli á, að það nær ekki lengur því markmiði sínu að búa til þá jöfnun milli flokka eins og gengið var út frá við breytinguna í kringum aldamótin. Fyrir því eru ákveðnar ástæður, eins og hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson vék að hér áðan. Það er bæði fjölgun flokka og auðvitað búsetubreytingar líka. Það eitt og sér kallar á einhverja endurskoðun á þessu fyrirkomulagi. Síðan er líka fyrir hendi sú ástæða, sem ég geri ráð fyrir að það sé grunnurinn að tillöguflutningi hv. þingmanns og hennar félaga, að það er misvægi atkvæða milli kjördæma sem sett var inn í breytingarnar í kringum aldamótin á grundvelli ákveðinnar málamiðlunar þar sem hámarksmunur milli minnsta og mesta vægis mátti vera einn á móti tveimur. Það er atriði sem þarf líka að taka á þannig að ég vildi þakka fyrir þetta og held að þetta sé gott innlegg í þá umræðu sem þarf að eiga sér stað um þessi mál á komandi kjörtímabili.