Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

kosningalög.

14. mál
[21:48]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni og um leið forseta okkar fyrir að koma með þetta inn. Ég ætla kannski ekki að svara þessu öðruvísi en þannig að ég fyllist ákveðinni bjartsýni, það verða ákveðnar væntingar þegar maður heyrir þessa tóna varðandi það að við getum vonandi notað eitthvað sem kemur fram hér til að þoka okkur fram á við. Þetta er tilraun okkar til að sýna að það sé hægt að vinna undir núverandi ramma, m.a. stjórnarskrárinnar. En það er rétt sem hv. þingmaður sagði, að það var í júnímánuði 1999 sem ákveðin málamiðlun var gerð. Við fórum úr einum á móti fjórum í einn á móti tveimur og um það snerist jómfrúrræða mín þá, en ég var þá í sama flokki og hv. þm. Birgir Ármannsson. Ég veit að það voru aðrir sama sinnis og ég, að þetta væri bara skref í átt að því að ná jöfnun á atkvæðavægi í landinu. Og hingað erum við komin ríflega 20 árum síðar og gott betur. Ég vona að þetta verði til þess að við náum fram mikilli, djúpri og málefnalegri umræðu um þetta réttlætismál og að við náum þá að útfæra þetta þannig að bæði flokkar og þingmenn og síðan þjóðin geti gengið svolítið sátt frá borði, ég vona það og óska stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alls hins besta í hennar vinnu.