Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

kosningalög.

14. mál
[21:55]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir sína góðu framsöguræðu og fyrir það frumkvæði sem hún hefur tekið í þessu máli. Ég fagna líka sérstaklega þeirri eftirvæntingu sem ég skynjaði frá forseta Alþingis, Birgi Ármannssyni, fyrir því að jafnvel breyta stjórnarskránni til að jafna atkvæðavægi. Hér er talað um viðreisnarárin og þær breytingar sem þá voru gerðar á kosningaákvæðum stjórnarskrárinnar í samstarfi Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks við hatramma andstöðu Framsóknarflokks. Mig langar að fara enn þá aftar í tímann og vitna í texta sem er skrifaður árið 1927, með leyfi forseta:

„[Ó]samræmið milli þingræðis og lýðræðis hjer á landi [keyrir] úr hófi vegna þess, hversu mikið misrjetti er meðal kjósendanna um fulltrúaval til Alþingis […]. Þar sem kjördæmaskipun hefir að mestu verið haldið óbreyttri, er afleiðingin sú, að hver kjósandi i sumum kjördæmum hefir margföld áhrif á alþingiskosningar á við kjósanda, er búsettur er í öðrum kjördæmum, og þar með margföld áhrif á stjórn landsins í heild sinni. Eftir mannrjettindakenningum þeim, er þingræðið hvílir á, eiga allir fullorðnir menn í landinu að hafa jafnrjetti í þessum málum, og mun óvíða í siðuðum löndum sveigt svo langt frá því marki eins og hjer á landi.“

Þannig mælti Héðinn Valdimarsson þegar hann flutti stórmerkilegt frumvarp til stjórnskipunarlaga og fjallar í meginatriðum um þrennt: Um lækkun á kosningaaldri niður í 21 ár hjá þeim sem þegið höfðu sveitarstyrk vegna fátæktar, að þeir hefðu kosningarétt eins og annað fólk, og að atkvæðavægi milli landshluta yrði jafnað. Í huga Héðins Valdimarssonar var jafn kosningarréttur mannréttindamál og hann gerði í rauninni engan sérstakan greinarmun á útilokun frá kosningarrétti og misvægi atkvæða. Hvort tveggja gekk að hans mati í berhögg við þær mannréttindahugmyndir sem lýðræðisleg stjórnskipun byggir á.

Það var ekkert að ástæðulausu sem Alþýðuflokkurinn tók strax á upphafsárunum þá afstöðu að Ísland ætti að vera eitt kjördæmi. Í fyrsta lagi var ætlunin að jafna kosningarrétt alþýðufólks í bæjum og sveitum, í öðru lagi að jafna þingstyrk og kjörfylgi flokka, í þriðja lagi var bent á að slíkt kosningakerfi myndi þá sjálfkrafa aðlagast hröðum breytingum í atvinnulífi, atvinnuháttum og búsetu og í fjórða lagi átti þetta náttúrulega að draga úr sérhagsmunagæslu, fyrirgreiðslupólitík og hrepparíg.

Rökin fyrir jöfnu atkvæðavægi eru í mínum huga alveg jafn sterk í dag og þau voru fyrir 100 árum og það er ekki að ástæðulausu sem 66.554 kjósendur, 58,2% þeirra sem tóku þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar þann 20. október 2012, voru þeirrar skoðunar að það ætti að kveða á um það í stjórnarskrá að atkvæði kjósenda alls staðar af landinu eigi að vega jafnt. Reglan um einn mann, eitt atkvæði er einfaldlega mannréttindamál og misvægi atkvæða er misvægi mannréttinda.

Núverandi kjördæmakerfi var, eins og vikið var að hér áðan, í grunninn tekið upp árið 1959. Emil Jónsson, formaður Alþýðuflokksins, var alveg skýr með það þegar hann flutti ræðu við þetta tilefni að með þessu væri bara stigið skref í þá átt sem Alþýðuflokkurinn vildi fara, en nýja kerfið fæli ekki í sér fullt jafnrétti allra þegna þjóðfélagsins til þess að hafa áhrif á gang þjóðmála. Hann sagði: „Enn er ætlast til að heilir landshlutar hafi helmingi minni rétt en aðrir og ekki einu sinni það.“

Það er enn þá þannig að Ísland gengur lengst allra Norðurlanda í misvægi atkvæða milli kjördæma og flokka. Þetta benti hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hér á áðan og þetta kemur skýrt fram í ágætri skýrslu stjórnmálafræðinganna Birgis Guðmundssonar og Grétars Þórs Þórssonar frá 2011. Við erum enn þá með kerfi sem leyfir allt að tvöfaldan mun á vægi atkvæða eftir búsetu og þessu misvægi verðum við einfaldlega að vinda ofan af. Frumvarpið sem hér er til umræðu felur í sér mikilvæg skref í þá átt: Einn maður, eitt atkvæði. Þannig á það auðvitað að vera. Jafn kosningarréttur er grundvallarmannréttindi og við eigum ekki að gefa afslátt af þeim.