Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ýmsum þykir ástæða til að hafa áhyggjur af virðingu Alþingis. Þingið hefur samþykkt þingsályktunartillögu um siðareglur alþingismanna og sömuleiðis eru til siðareglur um störf ráðherra. Af hverju nefni ég þetta hér? Jú, ég tel svikin loforð stjórnmálamanna mun líklegri til að hafa neikvæð áhrif á tiltrú fólks á því sem við stjórnmálamenn fjöllum um hverju sinni en uppákomur sem verða í amstri dagsins og eru flestum gleymdar skömmu síðar. Þessi vandi á fyrst og fremst við afmarkaðan hóp okkar þingmanna, nánar tiltekið ráðherrana, en freistnivandi þeirra sem sátu sem ráðherrar í aðdraganda kosninga 2021 virðist hafa orðið þeim ofviða. Það er raunverulegt vandamál þegar kemur að virðingu fólks fyrir stjórnmálunum, freistingin að lofa hlutum sem aldrei var ætlunin að standa við varð ráðherrunum ofviða. Hvert málið á fætur öðru fellur um sjálft sig og veikburða plön ráðherrana sem loforðin gáfu, undirrituðu viljayfirlýsinguna eða héldu fjölmiðlaviðburðinn alla jafnan á kostnað skattgreiðenda. Til að nefna dæmi þá hefur í þessari viku komið í ljós að fjölmiðlasýningin í Laugardal þar sem ráðherra íþróttamála og forsætisráðherra skutust með borgarstjóra til að láta taka af sér mynd þar sem leiksýningin um nýja þjóðarhöll var römmuð inn með samkomulagi var lítið annað en það, leiksýning, enda hefur hæstv. fjármálaráðherra nú upplýst að hann var ekki aðili að samkomulaginu og engar forsendur til þess að hafa framkvæmdafé vegna nýrrar þjóðarhallar í fjárlögum fyrir árið 2023. Allt var þetta til að villa kjósendum sýn í aðdraganda kosninga. Fjármálaráðherra lýsti því vel í viðtali í gær að málið væri í raun svo skammt á veg komið að það væru engar forsendur til að tilgreina fjárveitingar til uppbyggingar í því fjárlagafrumvarpi sem nú liggur fyrir enda lægi ekki einu sinni fyrir hvernig hús ætti að byggja, hver ætti að eiga það og hver ætti að reka það.

Það eru fleiri sambærileg mál, virðulegur forseti, miklu fleiri. Er ekki mögulegt að svona æfingar séu raunverulega að draga úr tiltrú almennings á stjórnmálunum?