Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þingkona Pírata, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, átti orðastað við hæstv. dómsmálaráðherra hér fyrr í þessari viku vegna aðgerðar sérsveitarinnar í Kópavogi um síðustu helgi. Þar lenti venjuleg fjölskylda í aðstæðum sem enginn ætti að lenda í nokkru sinni. Ég vil í framhaldi af þeim orðaskiptum sem hér urðu á milli þingmannsins og ráðherra vekja athygli þingheims á því hvernig hæstv. dómsmálaráðherra svaraði fyrirspurninni. Eitt af því sem hann sagði, hæstv. forseti, var, og þetta er bein tilvitnun: „Það verður aldrei hjá því komist að slík mistök geti átt sér stað í hita leiksins.“

Nú ætla ég ekki að halda því fram að mistök séu ekki gerð, auðvitað geta þau orðið, en það er eiginlega óhugsandi að hugsa til þess að viðbrögð við útkalli sem þessu, að mat á aðstæðum sé með þeim hætti, að það sé hægt að afgreiða það sem mannleg mistök að það mæti sérsveitarmenn með alvæpni, ógni venjulegu fólki heima hjá sér og handtaki það. Mér er nær að halda að í þessu tiltekna máli hafi verið á ferðinni mjög alvarlegur dómgreindarbrestur í viðbrögðunum. Það verður væntanlega skoðað af eftirlitsnefnd með störfum lögreglu. En það er hins vegar alveg ljóst að þetta er ekki einangrað tilvik, því miður, við höfum fleiri dæmi nýverið af framgöngu sérsveitarinnar og ég hef áhyggjur af því að réttaröryggi borgaranna sé ógnað.