Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Í fréttum vikunnar hefur m.a. verið fjallað um að ekki hafi náðst samningar við sjálfstætt starfandi heilsugæslustöðvar. Sú staða er auðvitað grafalvarleg og mun hafa áhrif á þúsundir einstaklinga sem hafa verið skjólstæðingar slíkra stofnana í mörg ár. Árið 2017 var tekið í notkun fjármögnunarlíkan sem reiknar fjármagn til heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu. Í því skyni voru gerðar skýrar og samræmdar kröfur til þjónustuveitenda og leitast við að gæta jafnræðis milli rekstraraðila og gagnvart notendum. Notaðar eru fyrir fram skilgreindar skýribreytur sem hafa á einn eða annan hátt áhrif á framleiðni og eftirspurn í heilsugæslunni. Tilgangur kerfisins er að gæta jafnræðis við úthlutun fjármagns og auka gæði og skilvirkni með það að markmiði að grunnheilbrigðisþjónusta sé í meira mæli veitt á heilsugæslustöðvum. Spurningin í mínum huga nú er hins vegar þessi: Eru þessar fyrir fram skilgreindu skýribreytur réttar? Af samtölum við forsvarsmenn sjálfstætt starfandi heilsugæslna virðist svo ekki vera. Þeir halda því fram að heilsugæslustöðvum sé mismunað þegar kemur að fjárveitingum og nú sé svo komið að einhverjar þeirra eru reknar með halla. Slíkum hallarekstri verður ekki mætt á annan hátt en með því að segja upp fólki, draga úr þjónustu eða hreinlega að loka stofnununum.

Virðulegur forseti. Það var mikið framfaraskref þegar nýju fjármögnunarlíkani var komið á fót sem fól í sér að fjármagnið ætti að fylgja sjúklingi. Hins vegar er það svo að þessar fyrir fram skilgreindu skýribreytur eru mannanna verk og eðlilegt að þær séu endurskoðaðar þegar ljóst er að þær mismuna rekstraraðilum og þar af leiðandi sjúklingum. Sjálfstætt reknar heilsugæslur þjóna um 17.000 manns og viðbúið að ófremdarástand skapist ef þær neyddust til að skella í lás.