Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Hv. þm. Bergþór Ólason gerði að umtalsefni hér áðan viljayfirlýsingu borgarstjórans í Reykjavík og ráðherra um nýja þjóðarhöll. Hæstv. fjármálaráðherra hefur loksins tjáð sig um þetta atvik nokkrum mánuðum seinna og er skemmst frá því að segja að hæstv. ráðherra bendir á að ekkert liggi fyrir um fjármögnun verkefnisins. Á sínum tíma skrifaði ég þetta þegar fréttir birtust um tilkynninguna, með leyfi forseta:

„Kostulegt að sjá þessa undirritun viljayfirlýsingar um nýjan meiri hluta í Reykjavík. Það er reyndar ólíklegt að þessir þrír flokkar nái meiri hluta en samt líklegra en að staðið verði við samkomulagið um þjóðarhöll. Ekkert þeirra virtist vita mikið um málið. Ekkert skipulag, engar teikningar, engin fjármögnun, ekkert vitað um skiptingu kostnaðar og enginn fjármálaráðherra, bara sameiginlegur áhugi á að gera eitthvað til að komast í meiri hluta í Reykjavík.“

Nú hefur hæstv. fjármálaráðherra loksins tjáð sig um þetta og hefði svo sem mátt gera það fyrr. En hæstv. fjármálaráðherra hefur hins vegar ekki látið sitt eftir liggja í að auka útgjöld ríkissjóðs þrátt fyrir að hann gjaldi varhuga við sumum af hugmyndum samráðherra sinna og í Viðskiptablaðinu er fjallað um þessa þróun. Það er greinarhöfundurinn Óðinn sem gerir það og bendir á, það sem sem við þingmenn Miðflokksins höfum rætt um frá því að fjárlögin voru kynnt, að þau feli í sér stórkostlega útgjaldaaukningu ríkissjóðs án þess að útskýrt sé hvað fáist fyrir það. En ég minni á að það er hlutverk okkar Alþingis, þingsins, að taka ákvarðanir um ríkisútgjöld. Er ekki tímabært að við grípum þar inn í og stoppum ráðherra af þegar þeir fara fram úr sér í sýndarmennskunni, jafnvel þótt það sé undir leiðsögn almannatengslafulltrúa og hugmyndafræðings Framsóknarflokksins, borgarstjórans í Reykjavík? (Forseti hringir.) Við þurfum að grípa inn í því að þetta er orðið ófremdarástand, herra forseti.