Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

skipulagslög.

144. mál
[16:02]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi svarað þessari spurningu sjálfur í inngangsorðum að fyrirspurn sinni, þegar hann sagði að sér virtist að stjórnvöld hlustuðu ekki á athugasemdir náttúruverndarsinna og þeirra sem hann hafði kannski meiri skilning á, en hlustuðu alltaf á skilaboð einhverra annarra sem væru með harðari og kaldari skilaboð framkvæmdaraðilans. Síða þegar hann fer að vitna í annars vegar framkvæmdaraðila og hins vegar eftirlitsaðila sem virðast vera á sömu skoðun, þá kemur kannski í ljós að það er svolítið túlkunaratriði hvað mönnum finnst. En vandinn er augljóslega enn þá fyrir hendi. Það var sá hnútur sem var verið að höggva á með því að setja á laggirnar þennan starfshóp á sínum tíma. Það er ástæðan fyrir því að þetta mál er enn komið fyrir þingið af því að það hefur kannski aldrei fengið nægjanlega efnislega umræðu hérna á þinginu. Ég held að það verði áhugavert vegna þess að sjónarmiðin eru ekki annars vegar þeirra sem segja að umhverfissinnar fái aldrei áheyrn eða hinna sem segja að framkvæmdaraðilar fái aldrei sínu framgengt. Þau eru báðum megin. Ég held að hv. þingmaður hafi svarað fyrirspurninni fyrir hönd ráðherrans í sínum inngangsorðum og tek undir þau.