Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

ávana- og fíkniefni.

5. mál
[17:59]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það þekkist að fólki sé ekki refsað fyrir afbrot sín vegna slíkra andlegra annmarka á verknaðarstundu að það er í rauninni ekki hægt að draga fólk til ábyrgðar. Þegar slíkt er notað, þ.e. að fólk sé ósakhæft, þá þarf að fara í gegnum langt og strangt gæðamat. Og jafnvel þó að hægt sé að álykta sem svo að manneskja sé með mjög miklar geðrænar áskoranir þá þarf það samt að hafa verið svo á verknaðarstundu að viðkomandi hafi verið viti sínu fjær, ef svo má segja. Eitthvað sambærilegt þarf að eiga sér stað þarna, það þarf að fara fram einhvers konar mat á einstaklingnum sem þarf þá að færa sönnur á að hann, hún eða hán, sé í veikasta hópnum. Það kallar þá á allar þær rannsóknir sem eiga sér stað og einhvers konar nýja skilgreiningu stjórnvalda á því hvenær þú telst vera nógu veikur til að komast inn í flokkinn „veikasti hópurinn“. Þá má líka velta fyrir sér hvort það sé breytilegt, að þú þurfir einhvern veginn að vera með einhvern mælikvarða á því og hvort það sé eingöngu heilsufarslegt eða mögulega félagslegt. Er veikasti hópurinn sá sem á hvergi höfði sínu að halla? Hvað með þann sem er fárveikur fíkill en á sína íbúð og á því höfði sínu að halla einhvers staðar? Við erum með alla flóruna þarna undir þannig að ég veit ekki hvaða mælikvarða hæstv. heilbrigðisráðherra ætlar sér að nota.