Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

ávana- og fíkniefni.

5. mál
[19:13]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Halldóru Mogensen fyrir andsvarið. Hún kom inn á marga punkta, ég skrifaði þá ekki hjá mér en alla vega var spurt: Af hverju eigum við að halda áfram (HallM: Skaðlegri refsistefnu.) skaðlegri refsistefnu? Ég hef ekki haldið því fram hér og ég tók það ítrekað fram í mínu máli að ég er málinu að mörgu leyti sammála. Það er ýmislegt í frumvarpinu, eitt sem mér láðist að nefna áðan var heimild lögreglu til að taka efni af börnum. Hvernig er það ekki skylda? (HallM: Það er í frumvarpinu, að taka efni af börnum.) Já, heimildarákvæði, en það megi hvorki vera heimild né skylda að taka þau af fullorðnu fólki. Ég skil ekki af hverju það er ekki skylda að taka fíkniefni af börnum t.d., þannig að það er ýmislegt í frumvarpinu sem stakk mig eitthvað í augun. En ég er í grunninn sammála því að refsistefnan er ekki góð, hún hefur ekki skilað okkur neinu.

Ég er ekki viss um að þetta mál hér, að taka á refsistefnu á þann hátt að neysluskammtar, sem þó eru margra daga neysluskammtar, séu að fara að verða „make or break“ í þessari stóru baráttu. Og hitt er það að varðandi óttann við það að hringja í lögreglu þá er ég ekki viss um að við höfum samhengi á milli þess að neysluskammtur sé refsilaus og þess að fíklar, langt gengnir fíklar sem eru í þeim aðstæðum að einhver sé að deyja — ég er ekki viss um að þeir séu eitthvað minna hræddir við að hringja eftir aðstoð þó að fimm grömm af kannabisi séu leyfð.