Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 7. fundur,  21. sept. 2022.

ávana- og fíkniefni.

5. mál
[19:51]
Horfa

Flm. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Forseti. Já. Bendir það ekki einmitt til þess, sem kemur svo sem ekki á óvart, að vímuefnavandi sem þetta fólk á við að stríða ýti þeim út í fleiri afbrot? Sérstaklega þegar lögreglan er að hafa afskipti af þeim, t.d. með því að taka af þeim skammta og annað. Ef lögreglan tekur af þér skammtinn af því að þú ert að nota ólögleg vímuefni þá þarftu að afla þér nýs skammts á einhvern hátt þannig að þetta ýtir undir aukin afbrot. Þú þarft að afla fjármagns til þess að geta keypt meiri vímuefni. Ef þú færð sekt þá þarftu að brjóta af þér til að afla fjármagns til að greiða fyrir sektina. Spurning mín er þessi: Hvað er það sem samfélagið græðir á því að halda áfram að refsa fólki? Það er eiginlega bara eina spurningin sem mig langar að fá svar við. Af hverju eigum við að halda áfram að refsa fólki? Hvað erum við að græða á því? Hvað kemur út úr því? Hvernig er það að hjálpa? Hvernig kemur það í veg fyrir þennan vanda, fíkniefnavanda sem við horfum upp á að er að aukast?