Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

uppbygging þjóðarhallar.

[10:36]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir að setja þetta mál hér á dagskrá. Ég hef nú bara verið á einni mynd að undirrita viljayfirlýsingu, af því að hv. þingmaður vitnaði í margar myndir. Frá því að sú viljayfirlýsing var undirrituð þann 6. maí sl., þá hefur starfshópur um uppbyggingu þjóðarleikvang íþrótta verið skipaður þar sem sitja fulltrúar þriggja ráðuneyta og Reykjavíkurborgar. Þessi hópur starfar undir forystu mennta- og barnamálaráðherra sem er einnig íþróttamálaráðherra. Þessi hópur á að samþætta störf framkvæmdanefndar og ráðgjafaráðs. Framkvæmdanefnd um uppbyggingu þjóðarleikvangs fyrir innanhússíþróttir hefur verið stofnuð. Formaður þess hóps er Gunnar Einarsson, fyrrverandi bæjarstjóri í Garðabæ, sem hv. þingmaður þekkir til, og það hefur verið ráðinn verkefnastjóri sem er að vinna með nefndinni að hlutverki hennar sem á að leiða faglega vinnu vegna allra þátta uppbyggingar mannvirkis og skipulags því tengdu. Þessi nefnd á að útbúa tímasetta framkvæmdaáætlun vegna þjóðarhallarinnar. Ég ætla ekkert að fara út í hin mannvirkin sem þarna heyra undir, annars vegar þjóðarleikvang fyrir knattspyrnu og hins vegar þjóðarleikvang fyrir frjálsar íþróttir, því þetta mál snýst ekki bara um þjóðarhöll fyrir innanhússknattíþróttir, handbolta og körfubolta, þetta snýst líka um knattspyrnuna og frjálsíþróttir.

Ég skal bara viðurkenna það hér og nú að mér er ekki nákvæmlega kunnugt um fundaplön hópsins, mér er sagt að hann sé að funda. Hafi fulltrúar íþróttahreyfingarinnar ekki verið kallaðir til þá hlýtur það að standa til, því hópurinn ku vera farinn af stað og farinn að funda reglulega vegna þess að á næstu mánuðum á að vinna alla þá nauðsynlegu undirbúningsvinnu sem þarf þannig að við getum lagt af stað í þetta mannvirki, sem ég get bara verið sammála hv. þingmanni um að er löngu tímabært. Það verður lagt af stað í þetta verkefni á þessu kjörtímabili (Forseti hringir.) og ég bind enn þá vonir við að því verði lokið á þessu kjörtímabili, af því að hv. þingmaður spyr.