Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

frítekjumark almannatrygginga.

[10:41]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Frítekjumark öryrkja sem býr einn vegna lífeyrisgreiðslu er upp á 25.000 kr. Frítekjumark 25.000 kr. ætti að vera uppreiknað í dag 60.000 kr. Frítekjumark fjármagnstekna er 90.000 kr. í dag og ætti að vera 210.000 kr. Frítekjumark atvinnutekna er 109.600 kr. í dag en ætti að vera 256.000 kr. ef launavísitala hefði verið notuð. Ég hef lagt þetta fyrir fjármálaráðherra og hann er sammála mér, það er skrýtið að frítekjumarkið skuli ekki hækka og hann notaði félags- og vinnumarkaðsráðherra sem hækju og sagði að þetta væri á hans borði. Ég hef farið með þetta til félags- og vinnumarkaðsráðherra og hann notar tvöfalda hækju og segir að þetta sé vegna þess að það sé ekki búið að endurskoða almannatryggingakerfið. En það hlýtur að vera eitthvað bogið við þetta. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Er þetta samkomulag milli stjórnarflokkanna, Framsóknarflokks, Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks, um að klekkja svona illilega á þessum einstaklingum? Á sama tíma erum við með einstaklinga sem fá milljarð borgaðan í arð og ef við værum með sama kerfi þar þá værum við að setja 70% á það og skila honum 300.000 kr. en hann væri í plús. Öryrkinn er á sama tíma að fá 5.000 kr. í vexti, ávöxtun, en hvað skilar það honum? 2.000 kr. Samt er hann í tapi. Það er ekki bara verið að skatta með fjármagnstekjuskatti tapaða ávöxtun heldur er verið að skerða það um 25% í viðbót, þessa töpuðu ávöxtun. Ég spyr: Hvernig í ósköpunum getum við haft þetta kerfi og er þetta samkomulag milli stjórnarflokkanna?