Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

frítekjumark almannatrygginga.

[10:43]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Fyrst vil ég segja að augljóslega er ekkert samtal um að klekkja markvisst á öryrkjum. Hv. þingmaður veit að svo er ekki. Hins vegar getum við hv. þingmaður verið sammála um að margboðuð endurskoðun á almannatryggingakerfinu hefur tekið allt of langan tíma. Af því að hv. þingmaður ræðir það kerfi hér vil ég fyrst minna á að hækkun bóta almannatrygginga í fjárlagafrumvarpinu miðast við verðbólguspá upp á 4,4% auk 1,1% viðbótarhækkunar sem ríkisstjórnin ákvað annars vegar til samræmis við almenna kaupmáttaraukningu á árinu 2023 og hins vegar til að mæta því að verðbólga hefur reynst meiri á árinu 2022 en forsendur gerðu ráð fyrir. Bætur almannatrygginga ársins 2022 hækka um 3,8% í janúar og 3% í júní. Spá Hagstofunnar gerir ráð fyrir að verðbólga á árinu 2022 verði 7,5% og þær hækka því um 0,6% til viðbótar til að mæta þessum mun.

Frítekjumarkið, sem hv. þingmaður nefnir, er óbreytt en ég vil minna á að framlög til að styðja við atvinnuþátttöku einstaklinga með skerta starfsgetu eru aukin um 300 milljónir sem er fyrsti liðurinn í því að gera öryrkjum kleift að sinna störfum, hlutastörfum, störfum sem miðast við skerta starfsgetu, með sérstöku framlagi. Síðan er áformað, af því að hv. þingmaður vitnaði í hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra um breytingar, að leggja fram frumvarp á vorþingi um nýtt greiðslukerfi. Vonandi getum við þá farið að kafa djúpt ofan í þessi mál, ég og hv. þingmaður. Gert er ráð fyrir því að þær breytingar taki gildi í áföngum. Þetta eru (Forseti hringir.) umfangsmiklar breytingar sem þarf að gera. (Forseti hringir.) Ég vil bara ítreka að ég er sammála hv. þingmanni (Forseti hringir.) um ósanngirni frítekjumarkanna eins og þau eru.