Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 8. fundur,  22. sept. 2022.

sala á upprunavottorðum.

[10:54]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Þetta hefur auðvitað verið umdeilt. Ég hef verið þeirrar skoðunar að þetta geti haft áhrif á gagnsæi þegar við skoðum það hvaðan orkan er upprunnin. Eins og ég þekki þetta mál þá hefur hins vegar þessi sala á upprunavottorðum, eins og það er kallað, eða upprunaábyrgðum, ekki áhrif á loftslagsbókhald í raun og veru. (Gripið fram í.) — Hvað segirðu? (BergÓ: Þetta sýnir nú þvæluna.) —Fyrirgefðu, þarna notaði ég 2. persónu aftur, herra forseti, afsakið. En þetta hefur ekki áhrif á loftslagsbókhaldið sem er auðvitað það mikilvægasta sem við erum að fást við. Það er hinn raunverulegi árangur þegar kemur að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Hefur þetta áhrif á ímynd Íslands — eins og hv. þingmaður veltir hér upp — þar sem upplýsingarnar eru ekki með gagnsæjum hætti? Það má deila um það. Það sem ég get tekið undir er það meginsjónarmið að æskilegt væri að við værum með þessar upplýsingar eins gagnsæjar og mögulegt er og þetta getur haft neikvæð áhrif á það.